Andvari - 01.03.1969, Blaðsíða 120
118
SIGFÚS BLÖNDAL
ANDVARI
siði og menningu og hugsunarhátt í smáu og stóru hjá okkar litlu þjóð. Það má
sjálfsagt víta mig fyrir ósamkvæmni, að ég hafi fellt burt eða gleymt ýmsu tæku,
en tekið með sumt óþarft og ýmislegt, sem mörgum mun finnast ótækt. Um það
verða aðrir að dæma, sjálfsagt verð ég dæmdur sekur í sumu, — en ég vona bókin
gagni meir en hún skaðar, og þá hef ég þó ekki unnið til ónýtis.
Þetta er nú orðið mesta rausbréf, og ég verð nú að fara að klykkja út. Ég sá
of seint í blöðunum fréttina um 70 ára afrnæli þitt. Hamingjuósk mín er eins
hjartanleg, þó hún komi ekki fyrr en nú, og ég vona, að heilsa þín andleg og
líkamleg leyfi þér enn í mörg ár að halda skáldskaparstörfum þínum áfram. Þú
minnist á kirkjufélagið íslenzka. Já, það er sorglegt, að orþodoxían hefur þar orðið
svona mögnuð. En hvað kemur til þess, að hinir hafa ekki getað sameinazt betur?
Því ekki vantar þó ýmsa góða menn í þeirra hóp.
Við fáum „Lögberg" og „Heimskringlu“ nokkurn veginn reglulega á Kgl.
bókasafninu. — Ég hef látið senda „Det Nye Nord“, tímarit, sem ég vinn við, til
ritstjórna þeirra blaða í staðinn. Sérðu það nokkurn tíma? Ég á þar ýmislegar
greinar um íslenzk mál.
Láttu mig nú ekki gjalda synda minna, en þar sem þú ert mér eldri og betri
maður, treysti ég þér til að fyrirgefa mér og skrifa mér aftur fljótlega. Ég skal
þá ekki láta líða eins langt milli bréfa.
Vertu svo sem bezt kvaddur, með hugheilum óskum alls góðs.
Þinn einlægur vinur,
Sigfús Blöndal.
Stephan bregður snarlega við þessu sinni og skrifar Sigfúsi um hæl 13. marz 1924 og
segir þar m. a.:
Góðvinur Blöndal.
Ég kem hér til að þakka, ekki til að borga, bréfið þitt frá 17. f. m., nýkomna,
það var svo gott og fjölviturt, að til að borga það, þyrfti ég að skrifa í „átta kapí-
tulurn" minnst og óvíst þó, að kaupin stæðust á, þegar búið væri [að] fella úr
allan rninn „smáa stíl“. En þrátt fyrir það: kæra þökk fyrir bréfið, Blöndal.
Sízt myndi ég gruna þig um að vera „húmbúgg", það er, að þykjast meiri
tungumála-garpur en þú ert, en hitt er satt, ég dáist að, hve víða þú hefir getað
við komið. Að vísu hafði ég heyrt, áður en við hittumst, að þú hefðir, þegar á
skólaárum þínum, þótt hamhleypa við „lærðu málin“. Einhver skólabróðir þinn
gat þess við mig. En þegar við höfðurn ögn kynnzt, vafðist það fyrir mér, hvort
þessi maður gæti verið „grimmilegur" málfræðingur, eins og ég hafði hugboð
um þá náunga. Mér fannst þú myndir of andlega „liðugur" til þess. í málfræði