Skírnir - 01.01.1930, Page 267
Skirnir]
Alþingi árin 1798—1800.
261
getið, að justitiarius hafi við þetta tækifæri flutt ræðu, sem
prentuð er sem fylgiskjal nr. II við tíðindin það ár, og er
ræða þessi aftur prentuð framan við útgáfu Sögufélagsins
af dómum landsyfirdómsins.
í ræðu þessari er að vísu Alþingi nefnt, en þess er
ekki minnzt með neinum söknuði. Bendir ræðumaður á
það, hve oft hafi þar orðið þau málalok, að dómum var
hleypt upp af uppivöðslumönnum; að öðru leyti getur
hann ekki Alþingis, og fyrir honum standa skýrara skugga-
hliðarnar i þjóðmálalífi fyrri alda en hinar björtu, og óskar
hann ekki skifta á kjörum sinnar aldar við fornaldanna
ímynduðu farsæld. En um leið og hann bendir á, að með
stofnun landsyfirdómsins sé vegurinn gerður styttri og
greiðari fyrir alla, sem þurfa að sækja eða verja rétt sinn
fyrir dómstólunum, segir hann sem „sidastur virkilegur lög-
maður íslands“ skilið við »heiðursfullt lögmanns embœtti
og það 872 ára gamla lögmanns nafn og embœtti", er þá
sé undir lok liðið.
Þegar tíðindin um afnám Alþingis og hinna gömlu
dómstóla bárust hingað til lands, verður þess ekki vart, að
almenningur hafi látið sig þessa viðburði miklu skifta. En
hér er þess þó að gæta, að á þeim tímum hafði alþýða
manna lítil tök á að láta uppi vilja sinn og skoðanir, svo
að athygli vekti út í frá. Ætla má, að flutningur þingsins
frá Þingvelli hafi komið meira við tilfinningar manna en
sjálft afnám þess tveimur árum síðar, því að eftir að þing-
ið var flutt, hvarf tilvera þess í meðvitund almennings.
Eftirtektarvert er það, að eftir höfuðskáld þess tima, þjóð-
skáldið Jón Þorláksson, finnst ekki eitt saknaðarstef um
Alþingi i ljóðabók hans. Annað skáld frá þeim tíma, Jón
prestur Hjaltalín, minnist þó þessa atburðar i Tíðavisum
sínum um 18. öldina á þessa leið:
»Alþingi frá Öxará — ofan í Reykjavíkurstað —
flutti hún, og fékk svo þá — fornri venju umturnað.
Lögréttuna lagði af — laga stytti mæliþráð —
yfirrétt einn aftur gaf — assessora og Justitsráð.«