Skírnir - 01.01.1930, Page 300
294
Þjóðfundurinn árið 1851.
[Skírnir
sýslu til þess að ræða stjórnarskipunarmálið, og senda
siðan tillögur til miðnefndar, er fundurinn kaus og sitja
skyldi í Reykjavík. Síðan átti að birta þessar tillögur í sér-
stöku blaði.
Þessu var vel tekið af þjóðinni. Nefndir voru kosnar
og tóku til starfa. Álit margra þeirra voru svo birt í »Undir-
búningsblaði undir þjóðfundinn«, er út kom 1850 og 1851.
Þessi nefndarálit eru stórmerkileg. Þetta var í fyrsta skifti,
sem íslenzk alþýða ræddi opinberlega stjórnarskipunarmál
landsins, og þó að tillögurnar séu nokkuð mótaðar af ávarpi
Þingvallafundarins, þá er þó merkilegt að sjá, hvernig
bændur og prestar ræddu málin, hve stjórnmálaáhuginn
var mikill og hve menn voru bjartsýnir og stórhuga. Hér
verður því sagt frá einstökum atriðum í tillögum nefnd-
anna. Meira Ieyfir rúmið ekki.
Nefndin í Vestur-Skaftafellssýslu lagði til, að á Al-
þingi ættu sæti 30 þingmenn, kosnir af öllum, er náð hefðu
lögaldri og ekki væru öðrum háðir, en auk Alþingis skyldi
árlega haldin prestastefna til þess að fjalla um kirkjuleg
málefni. Stjórn landsins skipa: 1. Jarl, valinn af konungi,
skal hann vera íslenzkur maður eða kunna að tala og rita
íslenzku. Skal hann hafa eftirlit með sýslumönnum og land-
fógeta og öllum lögstjórnarmálum. Ennfremur hafi hann
hluta af úrskurðarvaldi konungs, eftir því sem henta þykir.
2. Biskup, kosinn af prestastefnu, en staðfestur í embætt-
inu af konungi. Undir hann heyra öll kirkjuleg málefni.
3. Ráðherra, kosinn af Alþingi til fjögra ára í senn. Hann
á að hafa umsjón með póstgöngum og öllum verzlunar-
málum. Auk þess á hann að ferðast um landið og hafa
eftirlit með embættismönnum og sveitastjórnum. Stjórnin
á að sitja í Reykjavík. Alþingi getur kært jarl og ráðherra
fyrir embættisafglöp, en prestastefna biskup fyrir dómstóli,
er konungur skipar. Úrskurði dómsins má þó skjóta til
hæstaréttar. Nefndin telur æskilegt, að æðsta dómsvald
væri í landinu sjálfu, en telur það muni þó varla gerlegt
að sinni. Amtmannaembættin skulu lögð niður. íslendingar
taki þátt í kostnaði konungs eftir efnahag og réttri tiltölu.