Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 92
SAMRÆMD LOKAPRÓF GRUNNSKÓLA
AÐFERÐ
Tvö gagnasöfn lágu til grundvallar athuguninni. Annað gagnasafnið var úr könnun
Félagsvísindastofnunar Háskóla íslands á námsferli í framhaldsskóla (Jón Torfi
Jónasson og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir 1992). Hitt gagnasafnið var einkunnir úr
samræmdum lokaprófum grunnskóla vorið 1991 (Menntamálaráðuneytið 1992a).
Fyrra gagnasafn
Könnun Félagsvísindastofnunar náði til allra barna sem fædd voru árið 1969 og
voru í nemendaskrá Hagstofu íslands eða þjóðskrá á árabilinu 1982-1991, samtals
4.152 einstaklingar. Úr þessari könnun var aðgangur að samræmdum einkunnum í
íslensku, stærðfræði, dönsku og ensku og skólaeinkunnum í sömu greinum. Auk
þess voru upplýsingar um þann skóla sem samræmd próf voru tekin í.
Samtals tók 3.681 einstaklingur samræmd próf. Alls tóku 3.525 (96%) samræmd
próf vorið 1985, 89 (2%) nemendur tóku prófin vorið 1984, 62 (2%) nemendur tóku
þau vorið 1986 og samtals fimm nemendur tóku þau ýmist vorið 1983 eða vorið
1987. Þótt samræmd próf væru tekin á mismunandi tíma voru öll gögnin notuð í úr-
vinnslunni og þannig gengið út frá því að einkunnir væru sambærilegar á milli ára.
Hinn kosturinn hefði verið að nota aðeins þá sem tóku prófin vorið 1985, en það
hefði valdið skekkju þar sem þá hefðu nemendur sem voru ári lengur eða skemur
en aðrir nemendur verið felldir brott úr úrvinnslunni.
Seinna gagnasafn
Upplýsingar um einkunnir úr samræmdum lokaprófum grunnskóla vorið 1991
fengust hjá menntamálaráðuneyti. Upplýsingar fengust um samræmdar einkunnir
í íslensku og stærðfræði allra nemenda og einnig skólaeinkunnir þeirra í íslensku,
stærðfræði, dönsku og ensku. Auk þessa voru upplýsingar um fjölda réttra atriða á
hverri blaðsíðu prófheftisins í samræmdu prófi í stærðfræði og einkunnir fyrir sér-
hvern prófhluta í íslenskuprófinu. Einnig fengust svör við einstökum atriðum í
kjarna 1, fyrsta hluta stærðfræðiprófsins, fyrir 1.028 nemendur.
Einkunnir fyrir einstaka prófhluta samræmds prófs í stærðfræði voru reiknaðar
út frá niðurstöðutölum þeirra blaðsíðna prófheftisins sem prófhlutarnir spönnuðu.
Einkunnir voru í formi fjölda rétt leystra atriða í hverjum prófhluta og gátu orðið
hæstar 40 fyrir kjarna 1 og kjarna 2, en 20 fyrir daglegt líf og algebru. Einkunnir fyrir
prófhluta íslenskuprófsins voru á sams konar kvörðum. Heildarniðurstöður stærð-
fræðiprófsins og íslenskuprófsins voru einnig í formi rétt leystra atriða og voru því
á kvarðanum 0-100 en ekki á einkunnakvarðanum 1-10 eins og nemendur fá niður-
stöðurnar í hendur.
Skólaeinkunnir í íslensku, stærðfræði, dönsku og ensku voru skráðar eftir afrit-
um af prófskírteinum nemenda. Skólaeinkunnir voru allar á kvarðanum 1-10.
Samtals fengust upplýsingar um 4.154 nemendur. Samræmdar einkunnir feng-
ust fyrir 4.004 nemendur, þar af tóku 3.939 bæði samræmdu prófin. Skólaeinkunnir
í íslensku, stærðfræði, dönsku og ensku fengust fyrir 3.982 nemendur, en 3.859
þeirra höfðu skólaeinkunnir í öllum fjórum greinum.
90