Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 12
„HANN A FI MINN E R BÚINN A Ð FLYTJA SÉR AÐRA MÖMMU"
sína gæti í hugtakaþróun. Ýmsir telja raunar að allir þessir þættir hafi áhrif, en vægi
þeirra sé mismunandi eftir því hvaða hugtök um er að ræða, hversu gamall einstak-
lingur á í hlut o.fl. (sjá t.d. Gelman og Byrnes (ritstj.) 1991).
Hugtök um fjölskylduvensl eru af ýmsum ástæðum einkar vel til þess fallin að
prófa kenningar um hlutverk tungumáls annars vegar og hins vegar vitþroska í
hugtakaþróun hjá börnum. Þar er fyrst til að taka að þetta hugtakasvið er mjög
rökrænt. Fjölskylduvensl eru
- gagnhverf („reciprocal"):
Ef A er bróðir B, felur það í sér að B hlýtur að vera annaðhvort bróðir eða
systir A. Ef P er pabbi A, felur það í sér að A er annaðhvort sonur eða dóttir P.
- „gegnvirk" („transitive"):
Ef X er afi A, felur það í sér að X er pabbi P sem er pabbi eða mamma A.
- afstæð („relative"):
Hver einstaklingur tilheyrir mismunandi flokkum ættmenna („multiple
class membership") eftir því sjónarhorni sem tekið er. P getur verið pabbi
A og B, sonur X og Z, og jafnframt bróðir, frændi o.s.frv.
Fullur skilningur á hugtökum um fjölskylduvensl felur í sér skilning á rökrænum
eiginleikum þeirra og hlýtur því að vera háður vitsmunaþroska barnanna og hæfni
til rökhugsunar.
A hinn bóginn virðast þær upplýsingar sem börn fá í gegnum tungumálið og
félagslega reynslu einnig ómissandi. Bein skynjun eða reynsla dugar ekki til að
skilja merkingu hugtaka um fjölskylduvensl, eins og hugsanlegt væri um ýmis hlut-
bundin hugtök (fjölda, þyngd o.fl.) sem þróunarsálfræðingar hafa mikið rannsakað.
Bróðir hefur t.d. engin útlitseinkenni, lykt eða hljóð sem greinir hann frá karlmönn-
um sem ekki eru bræður neins. Sé tungumálið mikilvægur áhrifavaldur í þróun ein-
hverra hugtaka, ætti það að eiga við um hugtök af þessu tagi.
Loks ber þess að geta að hugtök á borð við móðir,faðir, afi, amma, bróðir og systir
varða afar mikilvægan þátt í lífi sérhvers barns frá upphafi. Meðal fyrstu orða í
orðaforða barna alls staðar í heiminum eru orð yfir þessar lykilpersónur (Ruke-
Dravina 1976; Leopold 1939). Rannsóknir sýna jafnframt að allmörg ár líða áður en
merking þeirra er fullmótuð. Heiti þessarar greinar er tilvitnun í tæplega fjögurra
ára snót og ber því glöggt vitni að merking orðsins mamma er ekki sú sama í hennar
huga og orðabókin lýsir. Sama má segja um orðin bróðir ogfrændi í máli Bjarts litla,
tæplega þriggja ára: „Hann Lárus frændi, pabbi hans Stefáns, er hann ekki bróðir
minn?" Stefán er besti vinur Bjarts og hann hefur sömuleiðis mikið dálæti á Lárusi
pabba hans. Bjartur kallaði þann síðarnefnda frænda í fyrsta skipti þegar hann smíð-
aði handa Bjarti forláta trésverð, og nú vill hann greinilega ganga enn lengra og
setja hann í flokk með bræðrum sínum! Ekki eru þeir þó skyldir svo vitað sé, en
Bjartur á hins vegar tvo eldri bræður og marga frændur sem honum þykir líka
mikið til koma, enda eru þessir menn góðir við hann og umhyggjusamir.
Flestir sem eiga samneyti við börn á forskólaaldri kunna dæmi sem þessi þar
sem ljóst er að börn eru að þreifa fyrir sér um merkingu algengra frændsemisorða.
Hvernig skyldu hugtökin að baki þessum venslaorðum þróast? Á hvaða aldri má
búast við að börn hafi þau á valdi sínu? Eru sameiginleg einkenni á hugtökum
10
*