Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 14
„ H A N N AFI MINN E R BÚINN AÐ FLYTJA SÉR AÐRA MÖMMU'
í fyrstu einkum tengd barninu sjálfu, en smátt og smátt nái þau til annarra, því síðar
sem þeir eru fjær barninu í aldri og skyldleika. Til þess að prófa þessa tilgátu,
breytti ég kerfisbundið fjarlægðinni (mældri í kynslóðum og skyldleika) milli
barnsins sem spurt var og fólksins sem spurt var um. Þannig gerði ég greinarmun á
þremur sviðum, sem ég reiknaði með að yllu börnunum vaxandi erfiðleikum:
1. svið: Barnið sjálft.
2. svið: Nánasta fjölskylda barnsins.
3. svið: Brúðufjölskylda.
I öðru lagi átti ég von á því að þróun frændsemishugtaka endurspegli vaxandi
skilning barna á þeim rökrænu eiginleikum sem áður var lýst. Niðurstöður all-
margra fræðimanna hafa staðfest þátt vitsmunaþroska í framförum barna á þessu
sviði. (Chambers og Travuchis 1976; Greenfield og Childs 1977). Fyrri rannsóknir
hafa þó aðeins fengist við hluta af venslakerfinu og ekki hefur verið skoðað kerfis-
bundið hvernig skilningur barna á rökrænum eiginleikum fjölskylduvensla þróast
eins og gert er í rannsókn minni.
Ýmsir hafa freistað þess að kanna hlut tungumálsins og/eða menningarlegra
breytna í þróun hugtaka um fjölskylduvensl (Benson og Anglin 1987; Bavin 1991;
Greenfield og Childs 1977) en niðurstöður hafa verið á ýmsan veg og ekki verið sýnt
fram á áhrif þeirra á sannfærandi hátt (sjá yfirlit í riti greinarhöfundar 1990). Raunar
liggur ekki í augum uppi hvernig prófa á hlut tungumáls og menningar í hugtaka-
þróun barna. Tilraunaaðstæður bjóða gjarnan þeirri hættu heim að verið sé að prófa
hvernig þeim gangi að leysa framandleg viðfangsefni, en óvíst hvað niðurstöður
segja um það sem gerist við eðlilegar aðstæður. Til þess að kanna hugsanleg áhrif
tungumálsins á þróun frændsemishugtaka, beitti ég samanburði á íslenskum og
dönskum börnum. Segja má að börn þessara frændþjóða búi við áþekk félags- og
menningarleg þroskaskilyrði, en hins vegar fá þau misítarlegar upplýsingar í gegn-
um móðurmálið um venslin milli kynslóðar foreldra sinna annars vegar og kyn-
slóðar afa og ömmu hins vegar. Þennan mun notaði ég sem eins konar tilrauna-
breytu (sbr. „natural experiments" sem Slobin (1985) mælir með við máltökurann-
sóknir). Dönsku orðin farfar, farmor, mormor og morfar merkja þessi vensl á mjög
gegnsæjan hátt, en aftur á móti fela orðin afi og amma, sem íslensk börn nota nær
undantekningarlaust yfir þessa ættingja, ekki í sér neinar slíkar upplýsingar. í
íslensku orðunum er heldur ekki gerður greinarmunur á móður- og föðurafa og
-ömmu eins og í dönsku.1 Sama má segja um orðin farbror og morbror í dönsku í sam-
anburði við íslenska orðið frændi, sem íslensku börnin nota yfir bæði föður- og
móðurbræður sína.2 Sé mál mikilvægur áhrifavaldur í þróun þessara hugtaka, ættu
1 í dönsku eru einnig til orðin bedstemor og bedstefar, þar sem ekki er gerður munur á móður- og föðurforeldrum.
Á upplýsingablaði um fjölskyldu hvers barns í úrtakinu, sem foreldrar þeirra fylltu út, var m.a. beðið um nöfn
á öfum og ömmum barnsins, bæði í móður- og föðurætt, sem og á föður- og móðursystkinum. Þá var einnig
spurt hvað barnið sjálft kallaði hvern þessara ættingja um sig, og þau orð/heiti voru síðan notuð í viðtölunum.
Þarna kom m.a. fram að orðin bedstemor og bedstefar reyndust ekki vera notuð af neinu barnanna sem rannsókn-
in náði til.
2 Hér er aftur stuðst við upplýsingar frá foreldrum, sbr. 1. neðanmálsgrein. í langflestum tilfellum lýstu foreldr-
arnir venslunum með farbror eða morbror og sögðu börnin nota þau orð. Örfá börn kölluðu föður- og/eða
móðurbræður onkel. íslensku börnin notuðu öll orðið frændi um bæði föður- og móðurbræður sfna.
12