Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 123
ÞORSTEINN HJARTARSON
sumra héraða þvílík að margar milljónir barna komast ekki í skóla. Auk þess er heil-
brigðisþjónusta nánast engin í þeim héruðum. Þótt nemendur systurskólans Bed-
kuvador séu aðeins 265 lýsir hluti kínverskrar dæmisögu þeirri hugsun sem er
grunnur systurskólaverkefnis okkar auk margra annarra.
Margir litlir hlutir,
gerðir á mörgum litlum stöðum
' af mörgu litlu fólki,
munu breyta ásýnd
heimsins.
(Sandin o.fl. 1988:35 - þýðing greinarhöfundar)
KOSTIR SYSTURSKÓLASTARFS
Kostir systurskólastarfs eru ótvíræðir. Ef verkefnið er vel afmarkað er peningunum
vel varið og tryggt er að hver króna renni til systurskólans. Það er t.a.m. nauðsyn-
legt að indverski systurskólinn velji og skilgreini verkefnið. Systurskólaverkefni er
einnig jákvætt fyrir starfsandann í skólanum okkar. Það kallar oft á uppbyggilegar
samræður nemenda og kennara og vinnur gegn fordómum í garð þeirra sem búa í
þróunarlöndum, þar sem nemendur eru komnir í persónulegt samband við börn
þar. Verkefnið gefur tilefni til að nemendur verða stoltir af eigin verkum. Skólinn er
allt í einu farinn að hafa áhrif á gang mála í framandi landi. Þannig stuðlar skóla-
starfið sjálfkrafa að meiri fræðslu um þróunarlönd og andstæður auðs og fátæktar á
jörðinni verða nánast áþreifanlegar. Loks er systurskólaverkefni skemmtilegt fyrir
nemendur og kennara, m.a. vegna þess að upplýsingar um árangur verkefnisins
berast til okkar.
ALÞJÓÐLEG ÁBYRGÐ KENNARA OG NEMENDA
Á tímum sívaxandi fjölmiðlunar, alþjóðlegra samskipta og viðskipta verður hlut-
verk kennara og annarra uppalenda enn mikilvægara. Það þarf að leggja meiri
áherslu á umfjöllun um íslenska menningu án þess að það leiði til hleypidóma
gagnvart öðrum þjóðum. Það getur verið vandasamt því jafnframt þarf að efla
alþjóðlegan hugsunarhátt nemenda. Skólafólk má ekki falla í þá gryfju að vera hlut-
lausir áhorfendur. Við höfum frekar þörf fyrir virka gerendur í alþjóðlegu sam-
starfi. Við skiljum betur en áður að allt er öðru háð. Sérhver maður er háður náttúr-
unni og þjóðir heims eru hver annarri háðar. Þetta ættu nemendur Brautarholts-
skóla að þekkja vel í dag vegna samskiptanna við systurskólann á Indlandi. Það er
ánægjulegt að nemendur í grunnskóla á íslandi geti aðstoðað fátækan skóla í þró-
unarlandi við að bæta vatnsból sitt, en skortur á hreinu vatni er talin vera bein orsök
80% allra sjúkdómstilfella í þróunarlöndum. Loks getur samstarf við framandi
þjóðir stuðlað að friðvænlegri veröld. Ef mannkynið ætlar ekki að falla á skynsemis-
prófinu þarf að rækta með börnum aukna ábyrgðartilfinningu gagnvart ýmsum
sammannlegum þáttum, s.s. friði og samstöðu fólks, kynþátta, kynja og þjóða.
121