Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 107
JÓHANNA G. KRISTJÁNSDÓTTIR
ER SÉRKENNSLA
TIL ÓÞURFTAR?
Nokkur hluti nemenda, sem stundar sitt tíu ára grunnskólanám í íslenskum skól-
um, glímir við erfiðleika af ýmsum toga. Um alllangt skeið hafa skólar veitt þeim,
sem eiga við námsörðugleika eða fatlanir að stríða, sérstaka aðstoð við nám sem
kallast sérkennsla og er það orð notað í þessari grein yfir alla kennslu sem boðið er
upp á í þessu skyni til viðbótar við almenna bekkjarkennslu eða í staðinn fyrir hana.
Skýringar á orsökum námserfiðleika eru margar. Ekki er þó deilt um að nem-
endur, sem eiga við slíka örðugleika að stríða, eru innbyrðis afar ólíkir; einnig er
ljóst að erfiðleikarnir geta snert námið bæði beint og óbeint og að þeir eru mismiklir
eða alvarlegir - sumir tímabundnir en aðrir langvarandi. Gera má ráð fyrir að flestir
séu sammála um mikilvægi þess að sérkennsla leiði til sem minnstrar félagslegrar
sérstöðu. Þátttaka foreldra í ákvörðunum um þjónustu er talin vera sjálfsögð og
samstarf starfsstétta er almennt talið hafa mikið gildi.
En þrátt fyrir þessa samstöðu um mörg veigamikil atriði ríkir þó ágreiningur
um önnur. Hér verður fjallað um gagnrýni á núverandi skipan sérkennslu í skólum
sem komið hefur hvað skýrast fram hjá hreyfingu sem á íslensku hefur verið nefnd
heiltæk eða heildtæk skólastefna1. Þessi hreyfing berst fyrir nýrri sýn og nýju viðhorfi
til þessara mála sem gerir m.a. ráð fyrir að sérkennsla verði lögð niður í núverandi
mynd en í staðinn komi góð, almenn kennsla. Eins og fram kemur í grein Kristínar
Aðalsteinsdóttur (1992) nær gagnrýni heiltæku skólastefnunnar til fjölmargra
atriða er tengjast sérkennslu eins og hún hefur verið skipulögð og framkvæmd á
síðustu áratugum.
Stundum gleymist að sérkennsla er tiltölulega ný og víðtæk þjónusta sem hefur
smám saman verið að byggjast upp innan almenna skólakerfisins. Aður en fjallað
verður nánar um gagnrýnina á núverandi framkvæmd sérkennslu í skólum verða
því rifjuð upp nokkur atriði sem hafa haft áhrif á þróun hennar á síðustu áratugum
hjá okkur og í löndum sem við berum okkur gjarnan við þegar félagsleg þjónusta,
menntun eða önnur velferðarmál eru til umræðu. Slík umfjöllun ætti að svara að
nokkru hvers vegna mismunandi skilningur er lagður í orðið sérkennsla eftir því
hvort um er að ræða kennslu barna sem eiga við alvarlega fötlun að stríða eða barna
sem glíma við tímabundna námsörðugleika eins og t.d. erfiðleika með lestrarnám.2
1 Kristín Aðalsteinsdóttir (1992) notar orðið heiltæk skólastefna um bresku stefnuna Whole School Approach þar sem
hún kynnir inntak þessarar nýju skólastefnu. Hafdís Guðjónsdóttir (1994) notar hins vegar orðið heildtæk
skólastefna um bandarísku Inclusion-hret/fmguna. Litið er hér á bresku og bandarísku stefnurnar sem anga á
sama meiði.
2 Nefnd um mótun menntastefnu (1994:101) gerir t.d. skort á fullnægjandi skilgreiningu á hugtakinu sérkennsla
að umræðuefni. Nefndin telur að ósamkvæmni ríki um merkingu hugtaksins.
Uppeldi og menntun - Tímarit Kennaraháskóla íslands 3. árg. 1994
105