Uppeldi og menntun - 01.01.1994, Blaðsíða 58
„SVONA GERUM VIÐ HLUTINA H É R I "
stjórnun. „Kenning Z" er því nokkurs konar framhald af hugmyndum McGregors
þar sem enn ein mynd er dregin upp af afstöðu til fólks og hvernig því sé best
stjórnað (sjá t.d. Schein 1986:18-19 og Campell o.fl. 1987:105-106).
Eins og áður sagði hafði Ouchi fyrst og fremst áhuga á að athuga hvað það væri
sem einkenndi stjórnun í fyrirtækjum sem áttu mikilli velgengni að fagna. Megin-
niðurstaða hans var sú að það sem réði úrslitum væru formerkin á þeirri stofnana-
menningu sem ríkti í hverju fyrirtæki. „Kenning Z" er því lýsing á slíkri stofnana-
menningu en hún er allfrábrugðin þeim stofnanabrag eða menningu sem „kenning
X" og „kenning Y" segja til um. Samkvæmt Ouchi eru helstu einkenni menningar-
innar í slíkum stofnunum þau að þar ríkir traust, samvinna, hópvinna, allir starfs-
menn eiga jafna möguleika á starfsframa, starfsmenn vinna heilshugar að verkefn-
um sínum og bera hag allrar stofnunarinnar fyrir brjósti (Hoy og Miskel 1991:215-
217). Þessar niðurstöður segja með öðrum orðum að hátækni og vélræn afköst séu
ekki aðaláhrifavaldarnir í velgengni fyrirtækja og stofnana, heldur það með hvaða
hætti fólki er stjórnað.
Ouchi bendir síðan á ýmis skipulagsatriði sem ýta undir þessi mikilvægu ein-
kenni í stofnanamenningunni. Hann segir að ef starfsmenn hafa tækifæri til að
vinna hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki ævilangt, beri þeir hag stofnunarinnar
fyrir brjósti; ef starfsmenn hafa möguleika á hægu klifri upp metorðastigann, hvetji
það til starfsframa; ef starfsmenn taka þátt í ákvörðunum, hvetji það til samvinnu
og hópvinnu; ef hver starfsmaður ber fulla ábyrgð á sameiginlegum ákvörðunum,
hvetji það til trúverðugleika og trausts; og að áhersla á hag allrar stofnunarinnar en
ekki einstakra deilda eða undirfyrirtækja, hvetji til samvinnu meðal jafningja að
sameiginlegu markmiði (Hoy og Miskel 1991:215-217).
Niðurstöður Ouchi höfðu mikil áhrif á hugsun fræðimanna um stjórnun enda
leiddu aðrar viðlíka rannsóknir svipað í ljós. Að öllum líkindum er rannsókn Peters
og Watermans á 62 blómlegum fyrirtækjum í Bandaríkjunum frægust. Niðurstöð-
urnar birtu þeir í bókinni In Search ofExcellence eða „Leitin að því besta" sem kom út
árið 1982 og varð metsölubók um allan heim. Helstu niðurstöður Peters og Water-
mans eru þær að stofnanamenning í þessum fyrirtækjum skipti sköpum fyrir vel-
gengni þeirra og að stofnanamenningin einkenndist af framsækni - að ráðast beint
á vandann í stað þess að setjast niður og gera áætlanir; af þjónustulund - að þjóna
sem best þeim viðskiptavinum sem skiptu við fyrirtækið; af áherslum á nýbreytni -
að frumkvæði hvers og eins til að vinna verkin á nýjan hátt sé tekið gilt og sjálfsagt;
af trú á atgervi - að litið sé á starfsfólk sem lykil að framförum; af áherslum á gæði
- að gæðavara eða þjónusta sé það sem stefna beri að (sjá t.d. Campell o.fl. 1987:106
og Hoy og Miskel 1991:216).
Þessar niðurstöður Ouchis, Peters og Watermans og fjölmargar aðrar af svipuð-
um toga leiddu til þess að stjórnendur í mörgum fyrirtækjum fóru að reyna að
stjórna í anda þeirra, en það gekk misvel (Deal og Kennedy 1982). Augu margra
fræðimanna beindust því að breytingastarfi í stofnunum og fyrirtækjum en sam-
hliða umræddum rannsóknum á skilvirkni hafði mönnum orðið Ijóst hvað illa gekk
að festa breytingar í sessi og gera þær að hluta af viðkomandi stofnanamenningu.
56