Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Blaðsíða 133
GYÐA JÓHANNSDÓTTIR
ar á háskólastig er menntakerfið á sjöunda áratugnum og einkenni þess; þensla
menntakerfisins og áhrif hennar á menntun barnakennara. Menntaumbætur á lands-
vísu eru hluti af sögulegu samhengi flutningsins en byggja jafnframt á sérstakri
fræðilegri nálgun þ.e.a.s. bandarískum kenningum sem sóttar eru í menntunarfræði
sjöunda áratugarins samanber mynd 1 hér að framan.
Menntaumbætur og kenningar í menntunarfræðum
Árið 1966 hófst Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra handa við að láta endurskipu-
leggja skyldunámsstigið og þeim umbótum lauk ekki fyrr en 1984 (Wolfgang Edel-
stein, 1988). Menntaumbæturnar voru einkum byggðar á ýmsum bandarískum kenn-
ingum í menntunarfræðum frá sjöunda áratugnum (Sigurjón Mýrdal, 1989).
í fyrsta lagi var byggt á hagfræðilegum kenningum um menntun svo sem
mannauðskenningu Schultz (1961). Hugmyndir hans voru nokkru síðar teknar upp í
OECD-viðmiðinu svokallaða. Þar var lögð rík áhersla á að efla vitsmunalega og
tæknilega getu vinnuaflsins sem síðar myndi skila sér í aukinni framleiðslu. Áhersla
var lögð á að fjárfesting í menntun leiddi til aukins hagvaxtar og vísindalegra fram-
fara (Sigurjón Mýrdal, 1989; Wolfgang Edelstein, 1988).
í öðru lagi voru menntaumbæturnar grundaðar á bandarískum námskrárkenning-
um þar sem lögð var áhersla á nýtt hlutverk barnakennara. Á fyrri hluta tuttugustu
aldar var kennarinn þekkingarmiðlari sem lagði áherslu á að miðla menningararfin-
um og utanbókarlærdómi. Með tilkomu námskrárkenninganna breyttist þetta hlut-
verk. Samkvæmt þeim átti barnakennarinn að vera vísindalegur sérfræðingur í
menntun barna. Hann þurfti að að vera fær um að kanna námslegar forsendur sér-
hvers nemanda og semja námsmarkmið í samræmi við þær. Hann skipulagði námið
samkvæmt þessum markmiðum og mat að lokum árangur námsins (Sigurjón
Mýrdal, 1989; Gunnar Finnbogason, 1995). Þetta var sívirkt ferli. Fram til ársins 1973
var mestmegnis stuðst við flokkunarfræði Blooms og Kratwohls. Þessi nálgun hefur
stundum verið nefnd innstreymis-útstreymis líkanið (Wolfgang Edelstein, 1988, bls.
85).
Þessi nálgun sætti æ meiri gagnrýni og þótti of vélræn. Upp úr 1973 bættist við
barnhverf hugmyndafræði. Samkvæmt henni fólst sérfræði kennarans í að kenna
nemandanum að hugsa eins og vísindamaður samkvæmt könnunaraðferðinni.
Þessar hugmyndir byggðu á kenningum hugsmíðahyggjunnar svo sem kenningum
Jean Piagets og Lawrence Kohlbergs. Kennarinn þurfti að vera fær um að vinna í
anda þessara kenninga og stuðla að auknum vitrænum og félagslegum þroska
(Ingólfur Á. Jóhannesson, 1991; Sigurjón Mýrdal, 1989; Wolfgang Edelstein, 1988;
Þorsteinn Gunnarsson, 1990).
Þessar kenningar sem eru sóttar í menntunarfræði sjöunda áratugarins bæta við
mikilvægum fræðilegum vinkli sem er notaður sem viðmið til þess að kanna rök-
semdir er tengdust eðlislægu víddinni í tímanálguninni (sjá mynd 2). Kenningarnar
fela í sér fræðileg viðmið sem hægt er að nota til þess að greina röksemdir sem vísa
til nauðsynlegrar sérfræðilegrar þekkingar sem byggir á ofangreindum kenningum
og tengjast þannig nýju hlutverki kennarans. í rannsókninni er athugað hvort ein-
131