Hugur - 01.01.2002, Blaðsíða 70
Hugur
Stefán Snævarr
menntaverki sem vera skal.30 Við gætum t.d. tekið gefna túlkun á Ham-
let og kallað hana „túlkun á Hrafnkötlu“ en það virðist fáránlegt.
Breski listspekingurinn David Best rær á sömu mið og Booth. Hann
bendir á að við getum ekki talað um margar túlkanir á sama verki nema
að gera ráð fyrir því að verkið hafi einhvers konar hlutlægan fasta. Ella
gætum við sagt að þessar túlkanir eigi ekkert sameiginlegt, þær ^alli
ekki um sama viðfangið og þá er út í hött að tala um fjölda túlkana á
sama verki.31 Ég vil bæta við frá eigin brjósti að þótt tómt mál sé að tala
um verkið-í-sér-sjálfu þá er hugmyndin um hlutlægan kjarna skáld-
verka nauðsynleg leiðarhugmynd (þ. Regulative Idee) allra túlkana.
Annars væri fullt eins hægt að kalla tiltekna túlkun á Hrafnkötlu „túlk-
un á Hamlet“.
Víkjum nú aftur að málflutningi Davids Best. Hann segir að þótt finna
megi margar jafnréttar túlkanir á sama texta sé ekki þar með sagt að
allar túlkanir séu jafngóðar. Til eru myndir sem sjá má frá einu sjónar-
horni sem myndir af héra, frá öðru sjónarhorni sem myndir af önd. Samt
er engin lífsins leið er að sjá myndina sem mynd af klukku. Eitthvað
svipað gildir um túlkun listaverka, það er hægt að túlka Lé konung með
ýmsum hætti en varla sem gamanleik. Sumar túlkanir eru verri en aðr-
ar þótt margar séu jafnréttháar, segir Best og hefur lög að mæla.32
Nú gæti efasinninn svarað því til að vissulega beri að greina milli túlk-
unar á verki X og verki Y en eftir standi að röklega séu til óendanlega
margar mögulegar túlkanir á X annars vegar, Y hins vegar. Enginn vinn-
andi vegur er að greina hafrana frá sauðunum, segir efasinninn . Hann
gæti bætt við að náttúruvísindin eru í sama báti. Vísindalegar kenning-
ar eru vansannaðar af staðreyndum og því má skýra sömu staðreyndir á
ýmsa vegu. Vísindamaðurinn verður að skálda í eyðurnar, kveðast á við
heiminn. Efasinninn gæti talið vansönnunina merki þess að bæði nátt-
úruvísindi og bókmenntafræði svífi í lausu lofti. En þá er nærtækt að líta
svo að allar kenningar séu þessu marki brenndar, þar með talin kenning
efasinnans um að jafnt náttúru- sem hugvísindi svífi í lausu lofti og þá
er erfitt að taka þá kenningu alvarlega. Því er engin sérstök ástæða til
að taka hana fram fyrir hina gagnstæðu skoðun. Þess utan verður ekki
30 Wayne C. Booth: The Company We Keep:An Ethics ofFiction (Berkeley: Univers-
ity of California Press, 1988) bls. 84.
31 Við má svo bæta að þá getur ekki verið til fjöldinn allur ósammælanlegum túlk-
unum! Við getum ekki sagt að hver túlki með sínum hætti því að þá eru engar
túlkanir, sérhver „túlkun" er eigið skáldverk.
32 Best: Feeling and Reason in the Arts (London: The Falmer Press, 1985) bls 19.
Eco tekur í sama streng. Eco: „Interpretation and Overinterpretation", Collini
(ritstj.) 1992a, bls 45-66.
68
J