Hugur - 01.01.2002, Page 96
Hugur
Jón Ólafsson
held að þessi einstaklingsbundnu rök geti líka átt við um samfélagið.
Siðfræðin hlýtur að koma fram sem hin gagnrýna íhugun í rökræðu sam-
félagsins um hvað sé því og einstaklingum þess fyrir bestu.
Þetta er mjög mikilvægt atriði. Það kann að vera nokkuð til í því hjá
Vilhjálmi að íhugun einstaklingsins hljóti að leita út fyrir það sem með
góðu móti má kalla siðfræði, til dæmis inn á brautir bókmennta og
lista. Sjálfsíhugun samfélagsins, samræða samfélagsins við sjálft sig,
hlýtur hinsvegar stöðugt að láta reyna á gildismat og gagnrýna það á
forsendum siðfræðinnar. Þannig virðist mér að í sjálfri hugmyndinni
um gagnrýna siðfræði felist ekki bara gagnrýnin umræða um sann-
gjarnar leikreglur heldur ekki síður um farsæld, verðmæti og gildismat
í einstökum atriðum.
Hagnýti og gagnrýni
Hvernig ber þá að meta fullyrðingu Vilhjálms að siðfræðin eigi „einkum
að skýra skilyrði þess að menn geti mótað eigið gildismat og komi sér
saman um sanngjarnar leikreglur í samskiptum sínum“?8 Með öðrum
orðum siðfræðin á ekki að segja mönnum til um farsæla breytni. Ef ég
leyfi mér nú að gera það sem mér finnst ekki gert í bókinni að velta þess-
ari skoðun fyrir mér fordómalaust, þá held ég að við höfum fjölmargar
ástæður til að efast um að takmarka megi hlutverk siðfræðinnar með
þessum hætti. Þessi lýsing fellir niður gagnrýnishlutverk siðfræðinnar
og það held ég að sé varhugavert.
Siðfræðin er nefnilega ekki bara tilraun til að búa til kerfi eða skýra
forsendur þess að menn geti breytt rétt og þannig að til heilla horfi. Hún
er ekki síður hörð og stundum niðursallandi gagnrýni á það sem við-
gengst. Jafnvel þó að það sé útilokað að siðfræðingar geti sagt mönnum
hvernig þeir eigi að lifa og haft meira til síns máls en hver annar, þá er
siðfræðileg gagnrýni á þau gildi sem menn lifa eftir kannski mikilvæg-
asti hluti siðfræðilegrar rökræðu. Siðfræðin hefur í gegnum tíðina
gagnrýnt lífsgildi á ýmsum forsendum. Stundum vegna þess að menn
séu ekki sjálfum sér samkvæmir, stundum vegna þess að þeir telji sig að-
hyllast algild verðmæti en geri sér ekki grein fyrir aðstæðum þegar þeir
neyðast til að hafna þessum verðmætum eða taka önnur fram yfir,
stundum vegna þess að verðmæti stangist á án þess að menn átti sig á
því. Svo má lengi telja.
Nú færist mjög í vöxt að siðfræðingar sitji í allskonar nefndum og ráð-
um og hjálpi fyrirtækjum og hinu opinbera við að taka ákvarðanir og
8 Vilhjálmur Árnason 1999, bls. 149.
94