Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Qupperneq 12
ekki undir nafni sem „ný-aristótelismi“. Til sanns vegar má færa að rök gegn því að
forsvarsmenn FPV hafi hamið hugsun sína innan aristótelískra vébanda séu ekki
endilega rök gegn því að FPV – að svo miklu leyti sem það snýst um nútímamennta-
mál fremur en orð Aristótelesar – sé rétt. Hefur þetta viðhorf ekki öðlast sín eigin til-
verurök, óháð því hvað Aristóteles sagði eða sagði ekki? Því er til að svara að ég hef
hug á efnislegum niðurstöðum fremur en einberri textarýni. Mér virðist hins vegar
að ýmislegt það í texta Aristótelesar sem stangast á við túlkanir FPV sé mikilsvert
framlag til menntunarfræða nútímans, ekki bara stafkrókafræða um forn rit, og það
er í því augnamiði sem ég dreg það fram í dagsljósið hér.
Í framhaldinu greini ég eftirfarandi fjóra lykilþætti FPV og andmæli þeim, lið fyrir
lið, hverjum í sínum kafla:
a) Aðferða- og þekkingarfræði Aristótelesar felur í sér að hagnýt heimspeki
komist af án hefðbundins aðferðar- eða kenningargrunns.
b) „Framleiðsla“ undir handarjaðri technê er að fullu útreiknanlegt ferli, í
andstöðu við „gjörð“, þar á meðal kennslu, undir handarjaðri fronēsis.
c) Fronēsis ber að túlka út frá siðferðilegri stakhyggju (moral particularism) er
býður öllum algildum reglum birginn.
d) Kennslustörf í skólum eru réttast skilin sem praxis, með ásjá fronēsis.
FELUR AÐFERÐA- OG ÞEKKINGARFRÆÐI ARISTÓTELESAR
Í SÉR AÐ HAGNÝT HEIMSPEKI KOMIST AF ÁN HEFÐBUNDINS
AÐFERÐAR- EÐA KENNINGARGRUNNS?
Hyggjum fyrst að því hvað túlkendur FPV hafa að segja um þetta efni.
Í grein sem birtist í tímariti í hjúkrunarfræði, en sem sækir þrótt sinn í rit Dunnes
og Carrs, staðhæfir höfundurinn að fronēsis skuli koma í stað „rannsóknarmiðaðs
starfs“ í hjúkrun og að við eigum að gefa upp á bátinn alla óra okkar um yfirburði
svokallaðra vísindalegra rannsókna (Flaming, 2001). Þótt Carr sjálfur sé ekki eins
stóryrtur þá ber hann lítinn hug til vísindalegra kenninga og aðferða: „hugtök á borð
við ,kenningu’, ,beitingu kenningar’ og ,aðferð’ eru utangátta við hagnýta hugsun og
eiga því engan tilverurétt í heimspeki sem snýst um vöxt og viðgang slíkrar hugsun-
ar“ (2004, bls. 62). Carr áréttar að kennslustarfið snúist ekki um beitingu einhverra
sértækra menntunarkenninga, óháðra tíma og stað, né heldur sé réttnefnd menntun-
arkenning hagnýt kenning sem þiggi fræðilegt gildi sitt frá æðri kenningakerfum í
heimspeki, félagsvísindum eða öðrum fræðasviðum (1995, bls. 35–38). Óvinirnir eru
hér sem fyrr tæknileg skynsemi og afleidd áætlanagerð, soðin saman úr ójarð-
bundnum, sértækum kenningum. Útbyrðis ásamt slíkum kenningum fara hugsjónir
upplýsingarinnar um skynsemi, hlutlægni og sannleika, ekki hvað síst hugmyndin
um að hægt sé að nota hlutlæga þekkingu sem tæki til skýringa á fyrirbærum og
vandamálum í menntun: „Það eru engin ,fyrirbæri í menntun’ nema störf þeirra sem
koma að menntuninni, engin ,vandamál í menntun’ nema þau sem skapast á þeim
starfsvettvangi“ (1995, bls. 37; sjá einnig Carr og Kemmis, 1986, bls. 144).
E R K E N N S L A P R A X I S ?
12