Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Qupperneq 15
hagnýt vísindi í nákvæmlega sama skilningi og þróast hefur og orðið hefðbundinn í
kjölfar upplýsingarinnar. En ef við rýnum í hugmyndir hans um mannlegt eðli og
siðlega breytni þá blasir við kerfi sem er ótrúlega líkt „kenningu“ í þessari hefð-
bundnu merkingu: merkingunni sem talsmenn FPV hrylla sig hvað mest yfir. Það er
kenning um „farsældina“ sem æðsta keppikefli mannsins: markmiðið sem við
„æskjum sjálfs þess vegna og alls annars vegna“ (Aristóteles, 1995, I, bls. 205–212
[1094a–1095a]). Það er, nánar tiltekið, altæk (sammannleg) „siðferðiskenning“ (Irwin,
1990, bls. 467), kenning sem hafin er yfir allar hversdagslegar skoðanir og tiltekinn
starfsvettvang. Við verðum hins vegar að gæta að því að þegar Aristóteles ber fram
alhæfingar sem hluta af kenningum sínum þá eiga þær oftar við náttúruleg viðmið
en einbera tíðni. Staðhæfingar svo sem „allir kjúklingar hafa vængi“ eða „ánægja er
kóróna dygðarinnar“ lýsa ekki reynslubundnum alhæfingum heldur náttúrulegum
(eðlisbundnum) alhæfingum; alhæfingarnar yrðu ekki hraktar með einstökum
dæmum af vansköpuðum (vængjalausum) kjúklingum eða illa upp öldum fólum
sem ekki fyndu til neinnar gleði við dygðuga breytni. Allar slíkar alhæfingar hafa
ákveðið gildissvið („viðmiðið“) og oft er útilokað að fella það svið inn í alhæfinguna
nema með því að segja að alhæfingin gildi við allar eðlilegar aðstæður (Irwin, 2000,
bls. 109–112; Mikael M. Karlsson, 1994). Ég vík aftur að þessu síðar í ritgerðinni.
Talsmenn FPV reyna að reisa ákveðna aðferðafræðilega afstæðishyggju um
menntun (þ.e. hugmynd um að aðferðafræði menntunar verði ekki skilin frá starfs-
vettvanginum og hvíli ekki á neinum almennum, föstum kenningagrunni) á grunni
kenninga heimspekings sem hallur var undir aðferðafræðilega veraldar- og bjarg-
hyggju. Máltækið kennir okkur að ójafnir strengir tvinnist aldrei vel. David Carr tek-
ur því naumast of djúpt í árinni þegar hann segir að þessi fyrirætlun „reyni nokkuð
á þolrif“ talsmannanna (1995a, bls. 146). Gleymum Aristótelesi um stund og gægj-
umst í staðinn örstutt í fórur annarra helstu menntahugsuða sögunnar frá Platóni til
Deweys. Allar hugmyndir þeirra um menntun eru kenningar, í sama hefðbundna
skilningnum og greinargerð Aristótelesar fyrir mannlegri farsæld er kenning; þær
eru almennar, sértækar, kerfisbundnar, alhæfanlegar og leggja okkur verkhæf ráð um
hagnýt efni. Þær fjalla um hvað það er sem ungt fólk þarf á að halda til að þrífast og
dafna, hvernig það lærir og hvað og hvernig á að kenna því. Þær eru, með öðrum
orðum, „hagnýtar kenningar“ í nákvæmlega þeim skilningi sem W. Carr hefur mesta
óbeit á. Eða hyggjum að nýrri kenningu, sem ég sjálfur hef kynnt mér og fjallað laus-
lega um áður á síðum þessa tímarits: kenningunni um félagsþroska- og tilfinninga-
nám (Kristján Kristjánsson, 2003). Sú er byggð á sálfræðilegum og heimspekilegum
hugmyndum um mikilvægi tilfinningagreindar eða tilfinningalæsis og hvernig unnt
sé að efla slíkt læsi hjá nemendum. Hvernig myndu talsmenn FPV meta slíka kenn-
ingu: sem ótæka án frekari skoðunar þar eð hún sé um allt ungt fólk og því óbundin
tilteknum starfsvettvangi (tilteknum skóla eða menntakerfi á tilteknum stað og tíma)
– eða kenningu sem í besta falli geti átt heima við tilteknar aðstæður? Hvort sem
svarið væri þá væri það öldungis óaristótelískt, bæði í ljósi almennrar aðferðafræði
hans er lýst var að framan og þeirrar skýru ábendingar hans um sammannlegt eðli að
ferðalög á erlendri grund færi okkur heim sanninn um „hversu kær og náskyldur
K R I S T J Á N K R I S T J Á N S S O N
15