Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Side 38
Athygli vekur að nánast allir eru nokkuð eða mjög ánægðir með þann stuðning sem
þeir fá við að gera, þ.e. þjálfun og æfingu í að kenna.
Ástæða er til að skoða sérstaklega svör við spurningum um að þekkja eða vita. Nán-
ast öll námskeið í Kennaraháskóla Íslands hafa það að markmiði að efla þekkingu
nemanna, hagnýta eða fræðilega. Áberandi er að nemendur vilja þekkja og vita meira.
Þeir vilja aukna áherslu á þessa þætti. Það kemur ekki á óvart að nemarnir vilji leggja
meiri áherslu á að kynnast hagnýtum aðferðum í kennslu (85%). Á hinn bóginn
kemur á óvart hversu margir hefðu viljað leggja meiri áherslu á þekkingu í uppeldis-
greinum (42%) en kennaranemar hafa stundum átt erfitt með að koma auga á nota-
gildi slíkarar þekkingar. Margir vilja meiri áherslu á þekkingu sem tengist náms-
greinum skóla (65%) og kemur sú niðurstaða ekki á óvart, þar sem nauðsyn á meiri
dýpkun í námsgreinum hefur oft verið rædd innan stofnunarinnar. Vert er að benda
á að enda þótt nemarnir vilji öðlast meiri þekkingu á þessum sviðum þá finnst þeim
ekki rétt að leggja minni áherslu á aðra þætti námsins, t.d. verklega. Einnig vekur
athygli að þeir sem vilja auka áherslu á hagnýta þekkingu vilja samt sem áður ekki
draga úr áherslu á annars konar þekkingu, þ.e. á uppeldisgreinar eða námsgreinar
skóla. Kennaranemarnir vilja greinilega læra meira.
Enda þótt námskeið í kennaranámi miði að því að efla bæði fræðilega og hagnýta
þekkingu kennaranema, er ljóst að margir nemendur telja kennaranámið ekki hafa
stutt vel við slíka þekkingu. Helst eru nemarnir sáttir við stuðning við þekkingu í
uppeldisgreinum; einungis 7% telja að kennaranámið hafi ekki stutt vel við slíka
þekkingu. Athygli vekur að 22% þátttakenda segja að kennaranámið hafi ekki stutt
vel við þekkingu sem tengist námsgreinum í skóla og 49% segja það ekki hafa stutt
vel við hagnýta þekkingu þeirra á aðferðum til að ná árangri í kennslu. Þetta vekur
upp spurningar þar sem mörg námskeið stefna einmitt að því að styðja við slíka
kunnáttu. Líkleg skýring er sú að nemunum nægi ekki að kynnast aðferðum sem
hafa gagnast öðrum kennurum vel. Þeir þurfa að sjá fyrir hvernig þeir sjálfir geta
tekist á við slík viðfangsefni. Í grein minni í Uppeldi og menntun (2004) er vitnað í
svar frá nema þar sem hann segist enn hafa mestar áhyggjur af agavandamálum, þótt
hann hafi kynnst mörgum aðferðum til að halda aga. Slík þekking verður greinilega
að tengjast persónulegri reynslu til að vera metin sem hæfni; nemarnir verða að átta
sig á hvernig þeir sjálfir geta beitt kunnáttunni.
Mörg námskeið leggja áherslu á ígrundun og á að efla persónulegan styrk kenn-
aranema, þótt slíkir þættir séu sjaldnast meginmarkmið námskeiða. Nemarnir
virðast vera nokkuð ánægðir með þann stuðning sem þeir fá við þessa þætti, einkum
stuðning við samskipti við annað fólk, enda er mikið um samvinnuverkefni í skól-
anum. Í ljós kemur að rúmur þriðjungur vill að meiri áhersla sé lögð á annars vegar
persónulegan styrk til að fást við starfið og hins vegar á sjálfskoðun og sjálfspæling-
ar, en þetta styður fyrri niðurstöður rannsókna um mikilvægi persónulegrar hliðar
starfshæfninnar (Hargreaves, 1998; McLean, 1999; Ragnhildur Bjarnadóttir, 2004).
H V E R N I G S T Y Ð U R K E N N A R A H Á S K Ó L I Í S L A N D S V I Ð S T A R F S H Æ F N I K E N N A R A N E M A ?
38