Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Page 106
þessarar greinar og upphafsmaður GÓB-verkefnisins, Jónas Pálsson, var þeirrar
skoðunar þá og er enn, að við framkvæmd umbótastarfsins hafi of lítil áhersla verið
lögð á persónulega þætti sem snerta áhuga nemenda og kennara, svo og félagsleg og
aðstæðubundin skilyrði í skólum (Jónas Pálsson 1978a, 2002). Með þessu er ekki
dregið úr nauðsyn þess að regluverk skóla sé skilvirkt, vandaðar námskrár teknar
saman, náms- og kennslubækur endurnýjaðar, nýjustu kennslugagna aflað og náms-
og kennslutækni efld svo helstu atriði séu nefnd. Drýgsti þáttur í starfi sérhvers
kennara er að efla og viðhalda áhuga nemenda á námi sínu og á undanförnum árum
hefur áhugi fræðimanna beinst í auknum mæli að hlutdeild nemenda í árangursríku
skólastarfi (Cooper og McIntyre, 1996). Vakin hefur verið athygli á því að almennt
hafi ekki nægur gaumur verið gefinn að því að kanna viðhorf nemenda og sjónarmið
um nám og kennslu og hafa þau til hliðsjónar við mótun og framkvæmd skólastarfs
(Duffield, Allan, Turner og Morris, 2000; Flutter og Rudduck, 2004; Rudduck, Caplain
og Wallace, 1996; Rudduck og Flutter, 2004). En því eru þessi atriði nefnd hér að eina
af kveikjum þessa verkefnis er vafalaust að finna í slíkum viðhorfum, ásamt með
reynslu Jónasar Pálssonar sem skólasálfræðings og skólastjóra.
Jónas hefur alla tíð haft mikinn áhuga á félagspólitískum áhrifaöflum í víðum
skilningi. Hann hefur líka löngum hamrað á því að skólamál og menntamál yfirleitt
væru nátengd félagslegri og efnahagslegri þróun í hverju landi og er þar sama sinn-
is og Carron og Chau (1996). Í þessu samhengi notaði hann gjarnan slagorðið: „Skóla-
mál eru ævinlega stjórnmál“ í greinaskrifum á 7. og 8. áratug síðustu aldar.
Í sambandi við áhuga og námshvöt má nefna til sögunnar tvo fræðimenn, þá John
Dewey og Jerome S. Bruner. Dewey var einn helsti kenningasmiður verkhyggjusinna
(pragmatists). Reynsluhugtakið liggur til grundvallar kenningum Deweys um nám og
kennslu og er samofið þeim skilningi að leiðin til vaxtar og þroska felist í athöfn og
virkni einstaklingsins, sbr. hugtakið learning by doing (Dewey, 2000a og 2000b). Hjá
Bruner (1960, 1974) er vitneskja einstaklings eins konar líkan sem við smíðum svo að
fyrirbæri úr reynslu okkar öðlast merkingu, tilgang og skipan í vitund okkar. Bruner
telur að þekking sé í sjálfu sér hlutlæg en að líkönin séu ekki óbreytanleg heldur
endurmótist þau stöðugt fyrir áhrif nýrrar reynslu (Jónas Pálsson, 1978b). Einstak-
lingurinn (barnið/nemandinn) er virkur og hann aflar sér þekkingar með eigin
athöfn. Um þetta meginatriði virðast þeir Dewey og Bruner á einu máli.
Þetta baksvið, svo vítt og almennt sem það er, myndar hinn hugmyndalega grunn
GÓB-verkefnisins og ræður vali á verklagi og vinnugögnum við framkvæmd þess.
VERKLAG OG VINNUGÖGN
GÓB-rannsóknarverkið skiptist í fjóra meginþætti og er hver þáttur nokkuð sér um
efnistök, aðferð og vinnugögn (rannsóknargögn) eða matstæki á vettvangi. Verk-
þættir þessir eru:
1. Byrjunarviðtal við nokkra starfendur sem þekkja vel til í grunnskólanum.
2. Viðhorfakönnun meðal foreldra, starfsfólks skólans og nemenda.
3. Könnun starfsskilyrða í grunnskólanum. Sjö efnisflokkar greindir og metnir.
G R U N N S K Ó L A R Í Ó L Í K U M B Y G G Ð A R L Ö G U M
106