Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Síða 115
Í skólanum í sjávarþorpi eru foreldrar mjög á sama máli og nemendur, þ.e. náms-
kröfur almennt ekki of litlar en beinist ekki að þeim nemendum sem geti mætt þeim.
Þeir telja að vandinn sé sá að öllum sé þröngvað í sama „kennslupakkann“ og það
leiði til þess að árangur verði minni hjá öllum. Of mikil áhersla sé á að allir séu eins,
en „það eru ekki allir eins“. Foreldrar kvarta um agaleysi í samfélaginu og lélegan
vinnufrið í bekkjum.
Í sveitaskólanum eru foreldrar mjög á sama róli í sínum viðhorfum og nemendur.
Þeir segja að ekki skorti á formlegar námskröfur frá kennurum eða í námskrá, vand-
inn sé að fylgja kröfunum eftir á árangursríkan hátt. Þeir binda vonir um aukinn
námsárangur helst við vandaðri og betri kennslu, meiri aga og aðhald frá skóla og
kennurum en gleymdu þó ekki að nefna heimili og foreldra í þessu dæmi.
Í þéttbýlisskólanum telja kennarar að námskröfur séu nægar, einkum á yngsta og
miðstigi skólans. Kennarar eru hlynntir samræmdum prófum en í hófi þó og lýstu sig
andvíga prófum í 4. bekk. Kennarar í skólanum í sjávarþorpinu hafna því alfarið að
þeir geri ekki kröfur til nemenda. Þeir draga í efa réttmæti mælinga á námsárangri
eftir samræmdum prófum eða samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og síðan samanburði
á þeim grunni milli byggða og heimshluta. Kennarar telja námsárangur mest kominn
undir tvennu: Áhuga foreldra og metnaði og hins vegar gæðum kennslunnar.
Jákvætt samspil á þessum grunni milli skóla og heimilis ráði svo úrslitum. Árangur
sé þannig mikið kominn undir menntun foreldra og samfélagsgerðinni. Í sveitaskól-
anum er kennurum aftur á móti efst í huga ýmis atriði sem dregið gætu úr námsár-
angri, of margir nemendur í bekk og nemendur misvel til náms fallnir. Þeim er líka
ljóst að vinnufrið skortir í sumum bekkjum og nefna aðhaldsleysi heima fyrir og í
samfélaginu yfirleitt.
Í þéttbýlisskólanum álíta aðrir starfsmenn en kennarar að það þurfi að gera meiri
kröfur í námi, einkum til þeirra sem rísa undir þeim. Þessir starfsmenn deila þeirri
skoðun með foreldrum að ekki beri að lengja skólaárið og einnig eru þeir algerlega
andvígir samræmdum prófum í 4. bekk, sem þeir segja að valdi miklum kvíða hjá
börnunum. Í skólanum í sjávarþorpi telja aðrir starfsmenn en kennarar að formlegar
námskröfur séu sjálfsagt nægilegar en gera þurfi meiri kröfur til þeirra nemenda sem
skara fram úr. Þeir eru, líkt og aðrir, andvígir því að gerðar séu sömu kröfur til allra.
Agaleysi er að þeirra mati áberandi í samfélaginu, reglufestu áfátt og aðhald foreldra
of lítið. Próf og einkunnir telja þeir bæði æskilega og nauðsynlega þætti. Í sveitaskól-
anum eru aðrir starfsmenn en kennarar einnig á þeirri skoðun að námskröfum sé ekki
nægilega fylgt eftir þótt þær séu formlega til staðar. Þeir sjá úrbætur helst í aukinni
heimavinnu, meira aðhaldi og bættum vinnufriði í bekkjum.
Stjórnendur í þéttbýlisskólanum vekja athygli á að krafan um að mæta þörfum allra
nemenda sé nánast óframkvæmanleg í stórum blönduðum bekkjum. Stefna skólans
sé að auka einstaklingsmiðaða kennslu og stjórnendur leggja áherslu á að samstarf
við heimilin sé meginforsenda þess að góður árangur náist í skóla. Þeir lýsa andstöðu
við lengingu skólaársins. Í skólanum í sjávarþorpinu taka skólastjórnendur undir flest
sjónarmið foreldra og fleiri viðmælenda um að námskröfur séu að því leyti of litlar
að þær beinist ekki að nemendum sem vel séu færir um að mæta þeim. Reynt sé að
þjónusta allan bekkinn, það sama fyrir alla. Stefna skólans nú er að efla einstaklings-
J Ó N A S P Á L S S O N , A M A L Í A B J Ö R N S D Ó T T I R O G Ó L A F U R H . J Ó H A N N S S O N
115