Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Qupperneq 142
lega með starfseminni í ljósi viðmiðanna. Gæðatrygging (quality assurance) felur í sér
kerfi aðgerða (eftirlit og eftirfylgni) til að tryggja að aðföng, ferli og útkomur standist
þau gæðaviðmið sem sett hafa verið. Loks vísar gæðavottun (accredidation) til út-
gefinnar staðfestingar á að lágmarksviðmiðum um gæði sé fullnægt á tilteknum
tímapunkti og er undanfari opinbers leyfis eða viðurkenningar á starfseminni.
Gæðavísar háskóla
Í alþjóðlegum samanburði á gæðum háskóla er algengast að notaðir sé vísar
(indicators) sem tengjast aðföngum og útkomum. Lítið er um ferilvísa, enda að ýmsu
leyti örðugt að skilgreina gæði verkferla í háskóla- og vísindastarfi. Meðal algengra
gæðavísa eru hlutfall kennara í fullu starfi, hlutfall kennara með doktorspróf, hlutfall
kennara sem hafa prófessorshæfi, hlutfall kennara sem hafa birt ritsmíðar á viður-
kenndum alþjóðlegum vettvangi eða fjöldi slíkra ritsmíða á hvern kennara, fjöldi til-
vitnana á hvern kennara, rannsóknarstyrkir (heildarupphæð styrkja, eða hlutfall
kennara/sérfræðinga sem fengið hafa styrk úr samkeppnissjóði, eða hlutfall styrk-
umsókna sem leitt hafa til úthlutunar), hlutfall lítilla bekkja (undir 20 nemendur),
hlutfall stórra bekkja (50 eða fleiri nemendur), kennslurými á nemanda, höfnunar-
hlutfall námsumsókna, hlutfall nemenda sem voru meðal efstu 10 prósenta í sínum
útskriftarárgangi í menntaskóla og skilvirkni nemenda í námi (t.d. hlutfall nýnema
sem skilar fullum námsafköstum eða útskrifast á venjulegum námstíma) (sjá Provan
og Abercromby, 2000; Times Higher Education Supplement, 2005; US News and
World Report, 2005).
Engar heildstæðar upplýsingar er að finna á einum stað um stöðu íslenskra há-
skóla með tilliti til gæðavísa eins og þeirra sem að ofan greinir. Þó er hægt að nálgast
upplýsingar frá háskólunum sem ná til margra þessarra vísa. Greinarhöfundur aflaði
upplýsinga í febrúar 2004 frá skólaskrifstofum og úr ársskýrslum háskólanna og
reiknaði út inntökuhlutfall við upphaf skólaárs 2003–2004 (þ.e. hlutfall inntekinna
nemenda af skólaumsóknum), skilvirkni nemenda (þ.e. hlutfall virkra nemenda
[nemendaígilda] af skráðum nemendum skólaárið 2002–2003) og virka nemendur á
hvert stöðugildi fastra kennara (skólaárið 2002–2003). Þá aflaði höfundur upplýsinga frá
skólaskrifstofum um hlutfall prófessora meðal fastráðinna kennara (febrúar 2004) og
hlutfall fastráðinna kennara með doktorspróf (febrúar 2004). Hlutfall nemenda með
stúdentspróf var fengið úr skýrslu Ríkisendurskoðunar (2004). Þá aflaði höfundur
upplýsinga frá Vísindasjóði Rannís um fjölda umsókna og styrkja frá skólunum og
reiknaði hlutfall umsókna frá skólunum sem fengu styrk á árunum 2002 og 2003. Loks
aflaði höfundur upplýsinga um birtar vísindagreinar allra fastráðinna kennara
háskólanna í viðurkenndum tímaritum skráðum í ISI-gagnagrunninum fram til miðs
febrúar 2004. Af heimasíðum háskólanna og kennaranna skráði höfundur einnig ef
kennari hafði birt fræðilega bók hjá alþjóðlegu fræðibókaforlagi. Út frá þessum upp-
lýsingum reiknaði höfundur hlutfall kennara sem birt hafði a.m.k 1 fræðilega ritsmíð
(tímaritsgrein eða bók) á alþjóðlega viðurkenndum vettvangi. Landbúnaðarháskól-
inn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum og Garðyrkjuskóli ríkisins voru ekki með í
þessum samanburði, m.a. vegna þess að nauðsynlegar upplýsingar skorti. Þá er rétt