Læknablaðið : fylgirit - 01.12.1983, Blaðsíða 100
hafa fleiri í meðferð sem búsettir eru utan Suð-
vesturlands en aðrar stofnanir.
Peir, sem fóru á erlendu stofnanirnar, eru flestir
úr þeim hluta hópsins, sem er á miðjum aldri, fleiri
karlar en konur miðað við innlendu stofnanirnar.
Það vekur athygli hvað margir úr þessum hópi eru
búsettir í nágrannabyggðum Reykjavíkur. Flestir
byrjuðu í meðferð á Silungapolli. Samt virðist það
vera þannig, að alls staðar leggist inn fólk, sem ekki
hefur verið innlagt áður á tímabilinu. Að mörgu
leyti virðast þeir hópar vera líkir sem fara á
göngudeild áfengissjúklinga og á stofnanir SÁA
(18). Þær stofnanir virðast því að einhverju leyti
hafa fengið til sín fólk, sem að öðrum kosti hefði
leitað til göngudeildar.
A tímabilinu fjölgar bæði körlum og konum í
meðferð, en konunum fjölgar hlutfallslega meira.
Nærtækasta skýringin á því er sú, að aukin áfengis-
neysla kvenna hafi leitt til aukinnar misnot-
kunar. Fleiri konur en áður neyta áfengis og þær
byrja fyrr að drekka. Kannanir á áfengisneyslu
unglinga sýna, að piltar og stúlkur eru á líku reki,
þegar þau byrja að neyta áfengis (5, 6). Þá benda
rannsóknir til þess, að konur verði fyrr áfengis-
sjúklingar en karlar, þar sem þær verði fyrr háðar
áfengi en karlar og þróist hraðar í átt til mis-
notkunar (21). Það er líka talið að umhverfið
þrýsti fyrr á konur en karla til að fara í meðferð,
eða að konur séu viðkvæmari fyrir slíkum þrýstingi
(22). Álitið er að konur reyni að dylja áfengis-
vandamál sín lengur en karlar (23). Ástæða þess
sé, að samfélagið telji frávik frá almennum áfengis-
neysluvenjum óæskilegt, en það sé miklu verra að
konur misnoti áfengi en karlar. Sú mikla áhersla,
sem stofnanir SÁÁ leggja á áfengissýki sem sér-
stakan sjúkdóm, hefur hugsanlega höfðað sérstak-
lega til kvenna, og dregið vanda þeirra meira fram í
dagsljósið.
Gera má ráð fyrir, að aukin áfengisneysla ungs
fólks hafi haft í för með sér, að misnotendum í
þeirra hópi hafi fjölgað. Þá er líka rétt að hafa í
huga, að í könnunum á áfengisneyslu, neyslu-
venjum og afleiðingum áfengisneyslu kemur yfir-
leitt í ljós, að þeir sem drekka mest og hafa flest
vandamál samfara því, eru ungir menn á aldrinum
20 til 29 ára (24, 25, 26). Þegar menn eldast,
breyta þeir um lífsvenjur og neysluvenjur áfengis
verða aðrar, oftast án þess að þeir fari í neina
sérstaka meðferð.
Á því tímabili sem hér hefur verið fjallað um,
hefur einstaklingum, sem leggjast inn á sjúkrahús
til meðferðar, ekki aðeins fjölgað, heldur hefur líka
breyst hverjir leggjast inn vegna áfengissýki og
annarrar vímuefnaneyslu. Konur fara í auknum
mæli í meðferð og það sama má segja um ungt fólk.
Þá hefur þeim, sem búsettir eru utan höfuðborgar-
svæðisins, fjölgað, einkum körlum. Þessi þróun er
að nokkru leyti í samræmi við þá breytingu sem
hefur orðið á áfengisvenjum þjóðarinnar. Eins og
rakið var hér að framan hefur áfengisneysla orðið
almennari og nýir neytendur komið til sögunnar.
Þeir hafa sérstaklega komið úr hópi kvenna og
unglinga. Framboð á sjúkrahúsmeðferð vegna
áfengissýki hefur aukist samtímis því, að nýir
hópar áfengisnotenda hafa bæst í hóp þeirra sem
fyrir voru. Hugmyndafræði hinna nýju stofnana,
sem eiga stærstan þátt í auknu framboði á meðferð
hefur verið sú, að leggja áherslu á misnotkun
áfengis sem sjúkdóm, og það algengan sjúkdóm.
Allir geti fengið þennan sjúkdóm og hann sé að
finna í öllum stéttum, en ekki aðeins meðal utan-
garðsmanna eins og almenningur taldi áður. Þá
hafa ýmsir talsmenn þessarar hreyfingar komið
fram sem áfengissjúklingar opinberlega og hefur
það átt sinn þátt í því að menn dylja ekki áfengis-
vandamál sín lengur, ef þeir geta litið á þau sem
sjúkleika. Þetta hefur gert meðferð eftirsóknar-
verðari en hingað til hefur verið. Það er ekki ótrú-
legt, að hin mikla áhersla, sem lögð er á áfengis-
misnotkun sem sjúkdóm, hafi haft áhrif á konur,
ekki aðeins vegna þeirra eigin meðferðarþarfa,
heldur hafi það líka orðið til þess að konur hvetji
eiginmenn sína til að fara í meðferð, ef litið er á
áfengisvandamál sem sérstakan sjúkdóm.
Með því að leggja áherslu á sjúkdómshugtakið
verður áfengisvandamálið heilbrigðisvandamál og
afskipti löggæslunnar af því fara minnkandi. Þessi
þróun hefur átt sér stað víða um lönd síðustu ára-
tugi (9). Hún hófst hér á landi 1949 með setningu
laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.
Auknir möguleikar á innlögnum hafa ýtt enn
frekar undir þessa þróun.
Þau boð hafa verið send til almennings, að
áfengissýki sé miklu algengari en menn haldi og að
áfengissjúklingarnir leynist víða. Það er því ekki
ólíklegt að ýmis félagsleg vandamál oft tengd
áfengi séu talin vera einkenni um áfengissýki og
staðfesti, að hana sé víða að finna. Áfengi er þá
talið orsakavaldur alls þess sem úrskeiðis fer.
Með tilkomu starfsemi sjúkrastofnana SÁÁ
hefur verið lögð aukin áhersla á meðferð áfengis-
misnotenda á sjúkrahúsum. Á sama tíma hefur
verið lögð vaxandi áhersla á göngudeildarstarfsemi
í hinni opinberu heilbrigðisþjónustu. Ástæða er til
þess að kanna nánar árangur og hagkvæmni þess-
ara tveggja þjónustuforma.