Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 98
Sindri Freysson
Frumur og svoleiðis
Litla íbúðin var næstum því algerlega myrk, aðeins smá bjarmi barst frá
auglýsingaskiltunum úti á verslunargötunni inn um glugga. Skíman náði
ekki að lýsa upp löngu, hoknu mannveruna sem stóð inni í einni dyragætt
íbúðarinnar og andaði snörlandi gegnum nefið.
Hann hafði sitthvað á móti starfi sínu, það viðurkenndi hann oft þegar
hann talaði við sjálfan sig í kjallaranum. Það var þó starf, að vísu ældi hann
stundum á eftir unnu verki vegna þess að honum fannst það ógeðslegt
(sköllótti maðurinn notaði mjög mikið orðið ógeðslegt, sérstaklega þegar
hann talaði um kaffið á litlu matsölunni). En hann hafði ekki getað fengið
annað starf eftir að ÞEIR höfðu rekið hann í burtu frá kjötpökkunarstöð-
inni. ÞEIR sögðu að hann skemmdi kjötskrokkana með hnífnum.
Hann hafði verið lengi án atvinnu. Loksins hafði hann hitt sköllótta
manninn í litlu matsölunni (hann hafði verið að kaupa kaffi) og það hafði
ráðið úrslitum.
Stundum hafði honum flogið í hug að gera eitthvað svonalagað en aldrei
haft kjark í sér . . . eitthvað í sambandi við frumurnar hélt hann, eftir að
hafa séð þátt í sjónvarpinu (það var sjónvarp á litlu matsölunni) um
frumur og svoleiðis.
Hann hafði hvergi fengið vinnu í langan tíma og sköllótti maðurinn
borgaði vel fyrir unnið verk. Sérstaklega þegar konunöfn voru skrifuð á
pappaþurrkurnar, þá fékk hann bónus, en það kallaði sköllótti maðurinn
þegar fleiri seðlar voru í umslaginu heldur en venjulega. Núna fengi hann
bónus (þetta hlaut að vera útlenskt orð, hann mundi ekki eftir að hafa
heyrt það hjá fólkinu á Hælinu) það var hann hárviss um.
Með rólegum handtökum lyfti hann upp gljáandi Polaroidmyndavél-
inni og beindi að baðherbergisgólfinu. Skær, blindandi flassblossinn gerði
líkama konunnar gulleitan eitt andartak. Skrúfjárnið stóð ennþá í bakinu á
henni og hann hætti við að taka það með sér heim í kjallarann. Það féll svo
vel saman við grænu kápuna . . . já og eldrauða hárið. Þau höfðu öll verið
með svona rautt hár. Sköllótta manninum líkaði afar, afar illa við svona
rautt hár.
Líklegast eitthvað í sambandi við frumurnar og svoleiðis . . .
360