Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 21
Robert Musil:
Kákánía
Eftirfarandi lýsing á tvíríkinu Austurríki-Ungverjalandi er tekin úr skáldsögu
Robert Musil (1880-1942) „Der Mann ohne Eigenschaften“ (Maður án eiginleika).
Þetta er afar viðamikið verk, en ófullgert, og komu fyrstu hlutar þess út á árunum
1930-1933. Musil nefndi sögusvið sitt Kákáníu vegna þess að öll opinber fyrirbæri
þessa ríkis voru merkt tveimur káum: Austurríska keisaradæminu og Konungsrík-
inu Ungverjalandi. Irónía verksins — sem glöggt birtist í þessum stutta kafla — er
ekki hvað síst fólgin í því að tími þess eru árin 1913-1914, rétt áður en þær miklu
hörmungar sem leiddu til endaloka tvíríkisins dundu yfir. Á þessum tíma er í
Kákáníu hafinn undirbúningur hátíðahalda í tilefni sjötíu ára krýningarafmælis
Franz Jósefs keisara árið 1918, rétt eins og engin verkefni séu meira áríðandi í
þessu landi sem „eftilvill þegar öllu er á botninn hvolft var land fyrir snillinga."
í Kákáníu, þessu misskilda ríki sem nú er liðið undir lok, sem var
um svo margt til fyrirmyndar en naut aldrei sannmælis, þar var
líka hraði, en ekki of mikill hraði. Þegar maður var staddur erlendis
og hugsaði heim skaut alltaf upp minningunni um hvít, breið,
íburðarmikil stræti er fótgönguliðar og póstvagnar streymdu um
ríkið þvert og endilangt einsog skipuleg fljót, einsog renningar úr
ljósu hermannaklæði, og umluktu löndin hvítum pappírsarmi
stjórnvalda. Og hvílík lönd! Jökla og höf var þar að finna, kalkfjöll
og kornakrana í Bæheimi, nætur með skortítusuði við Adríahaf og
þorp í Slóvakíu þarsem reykur leið frá strompi einsog frá uppbrettu
nefi, en þorpið kúrði milli tveggja lítilla hæða rétt einsog jörðin
hefði lokið í sundur vörunum tilað hita barni sínu. Að sjálfsögðu
fóru einnig bílar um þessi stræti; en ekki of margir bílar! Einnig hér
gerðu menn ráðstafanir tilað sigra loftið; en ekki of harkalegar. Það
bar við að skipi var siglt til Suður-Ameríku eða Austur-Asíu; en
ekki of oft. Ríkið hafði engan metnað tilað verða heimsveldi,
hvorki efnahagslega né landfræðilega; það var í hjarta Evrópu, á
mótum hinna fornu heimsása; nýlenda og löndin handanhafs —
283