Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 64
Tímarit Mdls og menningar
Astæður þess að fuglinn getur ekki flogið eru ekki fólgnar í fuglinum
sjálfum eins og algengast er í Kvœdum (sbr. „enga vængi á jeg til“) heldur
er honum hér haldið föngnum.
Einangrunin stafar beinlínis af því að skáldkonunni er meinaður að-
gangur að skáldskapnum, hún hefur allt sem skáld þarf að hafa til að bera
en hún fær ekki að helga sig honum: “Það veldur æfihryggð, er ei má
hylja,/ að helgað gat jeg þjer ei allan vilja.“ Henni er haldið í fjötrum sem
hún kemst ekki úr.
Með því að halda henni fanginni heldur hefðin henni frá skáldskapnum,
neitar að vísa henni veginn til áfangastaðarins og reynir að villa um fyrir
henni með því að yfirgnæfa óma skáldskaparlandsins:
I öllu sælu angan fann jeg þína,
í öllu fögru kenndi svip þinn vel,
en engin vildi veg til þín mjer sýna
nje vængi ljá um dimmblá himinhvel.
Og ótal raddir óma þina deyfðu
og engri von til stranda þinna leyfðu.
Raddir ríkjandi karlahefðar bókmenntanna villa þannig um fyrir skáld-
konunni og meina henni aðgang að fyrirheitnu landi skáldskaparins.
I IV. hluta flokksins kemur fram uppreisnarandi og vilji til að brjóta þá
hefð sem meinar skáldkonunni að ná til mannanna með ljóðum sínum.
I þessum hluta er vísun í Fjallræðuna, þar sem stendur:
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja
menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum
í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og
vegsami föður yðar, sem er á himnum. (Matt.5:14-16)
Vísunin sýnir að konan í ljóðinu lítur á það sem hlutverk sitt að brjóta
mælikerið sem hylur ljósið og biður um styrk að sér megi takast það:
O, drottinn ljóða, leið mig þangað,
sem ljósið undir keri skín;
Þar blóm í skugga ósjeð anga
og englum vorsins máttur dvín.
Gef þú mjer styrk að grýta kerið,
að geislum varpi ljós við ský,
svo endurnærist blóm og berið
og brosi englar vors á ný.
326