Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 14
Tímarit Máls og menningar
hugmyndafræði og raunverulegra athafna, milli orðs og æðis í þessu ríki.
Hræsni var öruggasta leiðin til metorða á síðustu áratugum Habsborgara-
veldisins, og hörðustu gagnrýnendur samfélagsins beindu spjótum sínum
öllu öðru fremur gegn henni: Þar má nefna blaðamanninn Karl Kraus,
lækninn Sigmund Freud og rithöfundinn Arthur Schnitzler. I raun voru
þetta synir að rísa gegn feðrum, afkvæmi þeirra vel stæðu borgara sem
byggt höfðu Ringstrasse snerust gegn hugmyndafræði feðra sinna. En
andófið var ekki pólitískt í eiginlegum skilningi, það birtist öðru fremur á
sviði listarinnar og gat af sér nýstefnuna, módernismann. Hin nýja
kynslóð í borgarastétt Vínar leit öðru vísi á listina en sú eldri:
Kynslóð Griinder-tímans (þriðji fjórðungur 19. aldar, mín aths.) var þeirrar skoðun-
ar að „viðskipti va;ru viðskipti" og að listin væri í kjarna sínum skraut (viðskipta)lífs-
ins. Synir þessara manna litu á listina sem eitthvað skapandi og héldu því fram að „list
væri list“ og viðskipti þreytandi truflun frá (listrænni) sköpun. Kynslóð Grunder-
tímans unni þeirri list sem vegsamaði gildi fortíðarinnar; þessir menn voru safnarar,
eða umsjónarmenn þeirra safna sem þeir höfðu gert heimili sín að. List yngri
kynslóðarinnar horfði þar á móti fram á við og var nýskapandi, og höfundum sínum
var hún þungamiðja lífsins.'
Hin nýja kynslóð listamanna ætlaði að skapa verðmæti handa þeim sem
ekki trúðu því lengur að samfélagið byggi yfir einhverjum siðferðilegum
gildum. Þessi verðmæti var að finna í listinni væri hún tekin alvarlega og
tengd innri veruleika listamannsins. Þetta var andóf gegn skynsemis-
hyggju borgarastéttarinnar af hálfu þeirra sem höfðu séð í gegnum hræsni
hennar, en voru þó sjálfir börn hennar. Þeir gátu ekki tengst þeim þjóðfé-
lagsöflum sem þá voru að stíga fram á svið sögunnar, en gátu ekki heldur
sætt sig við sívaxandi aðskilnað opinbers tungumáls og raunverulegrar
lífsreynslu. Hin nýja kynslóð módernískra listamanna leitaði umfram allt
sannleikans, og hún leitaði hans innra með sér. Miskunnarlaus sjálfskönn-
un hins ofdekraða unglings markar upphaf módernismans.
Ekkert minna en fullkomnun
Hvergi var opinber hræsni keisaraveldisins meira áberandi en á sviði
kynferðismála. A kynlífið mátti aldrei minnast og þess vegna voru allir
með það á heilanum. Með orðum Stefan Zweig:
Þessi „félagslega siðfræði", sem undir niðri viðurkenndi tilvist kynhvatanna, en vildi
þó með engu móti láta þetta uppskátt, var sjálfri sér ósamkvæm á fleiri en einn veg.
Fólk lést ekki sjá, að ungir menn hefðu kynhvatir, en deplaði þó til þeirra auga til
merkis um, að óhætt væri „að hlaupa af sér hornin", eins og það var orðað á
spaugsömu fjölskyldumáli. Gagnvart konunni var hins vegar um enga slíka tilslökun
að ræða.2
276