Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 42
Tímarit Máls og menningar
einan, eins og lítt er um sálsjúkt fólk. Þetta kemur fram í texta Lofts og í
því að aðrir skilja hann ekki:
OLAFUR: Eg fer að verða hræddur um að þú sért ekki með öllu
viti. (32)
STEINUNN: Hvernig á ég að vita, hverju þú leynir á bak við
orðin. Þú berð þau fyrir þig eins og skjöld. (53)
DISA: (óumrœdilega hrygg) Hvernig á ég að vita, hvort þú talar
sannleika eða lygi? (74)
Það er óhjákvæmilegt að áhorfendur leikritsins lendi í sömu erfiðleikum
og Ólafur, Steinunn og Dísa á köflum og að því leyti er Galdra-Loftur ef
til vill gallað leikverk, upplausnin sem lýst er, hin narkissíska kreppa, er á
mörkum þess að gera það örvæntingarfulla sambandsleysi sem fjallað er
um, að veruleika.
V.
Það er líka löng hefð fyrir því að misskilja Galdra-Loft eins og Jón Viðar
bendir á í grein sinni.23 Leikritið fékk kaldar viðtökur þegar það var
frumsýnt í Kaupmannahöfn árið 1915. Gagnrýnendur túlkuðu verkið þá
og lengi síðan, eins og það væri leikgerð á þjóðsögunni um Galdra-Loft
eða Faust eftir Goethe eða úrvinnsla á ofurmennishugtaki Nietzche.24 Það
er ekkert af þessu — þess vegna er það misheppnað. Svona hringsannanir
eru ekki merkilegar, en hitt er athyglisvert hve mjög menn hafa laðast að
þessu verki um leið og þeir hrökkva frá því.
Ég fæ ekki betur séð en að þetta tvíbenta viðhorf til Galdra-Lofts stafi af
því að menn nálgast það eins og borgaralegt raunsæisverk frá 19. öld og
ætla sér að lifa sig inní aðalpersónuna, samsama sig henni og lifa hennar
lífi. Það er hins vegar ekkert „þægilegt" að samsama sig Lofti eins og fram
er komið. Og menn vilja það ekki. Lausnin er sú að gera Loft að tragískri
hetju og höggva þá af hæl og tá — eða láta sér fátt um finnast og segja að
verkið sé misheppnað. I yngri túlkunum verksins er skilningurinn orðinn
opnari, meiri vilji til að nálgast textann á hans forsendum, en þar er að
finna sömu tilhneiginguna til að búa til samræmi, líta fram hjá þversögn-
um textans og hinu óhugnanlega, fráhrindandi við hann. Um leið er það
hið demoníska í verkinu, sem laðar menn að því aftur og aftur.
Julia Kristeva segir að meðvitundin um „hið fráhrindandi“, „hið óhugn-
anlega" sé það sem einkennir raunverulegar nútímabókmenntir. „Hið
óhugnanlega" er reynsla okkar af fyrsta aðskilnaðinum, einsemdinni,
klofningi verundarinnar milli ástar og viðbjóðs, mörunni sem liggur til
grundvallar sjálfi okkar. Þessi reynsla er svo ógnandi að öll menningar-
304