Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 18
Tímarit Máls og menningar
kynjanna innbyrðis. I fyrsta lagi er eins og Weininger gangi út frá
aðskilnaðinum sem var milli yfirlýstra siðferðilegra gilda og raunverulegrar
hegðunar í því samfélagi sem hann bjó við, og nánast fullkomni þennan
aðskilnað. Viðmið hans eru hin viðteknu verðmæti en sjálfum sér sam-
kvæmur gerir hann eftirsóknina eftir þeim að fullkomlega óframkvæman-
legum draumi. I öðru lagi verður konan hjá honum, rétt eins og hjá
Strindberg, öðrum þræði tákn hvatalífsins, hins líkamlega og jarðneska
sem reynist fullkomnunarþrá þeirra óyfirstíganleg hindrun. I konunni
hötuðu þessir menn eigin breyskleika, sem stóð í vegi fyrir því að þeir
næðu fullkomnuninni sem þeir stefndu að.
Loks má leiða að því rök að þegar Weininger er að skrifa um konuna sé
hann öðrum þræði að skrifa um það svið, sem samtímamaður hans í
Vínarborg var að „uppgötva“ á sama tíma, undirmeðvitundina eða dulvit-
undina. Sumt af því sem Weininger segir um hvernig hugur konunnar
starfi, hvernig hugsun hennar sé háð tilfinningum og líkamlegum skynjun-
um, minnir á umfjölhin Freuds um hugarstarf dulvitundarinnar. Þegar
Weininger er að lýsa konunni, er hann því líka að lýsa sínu innra sálarlífi,
og þeim hindrunum sem þrá hans eftir fullkomnun þarf að mæta. „Ottinn
við konuna“, segir hann á einum stað í Kynferði og skapgerð, „er óttinn
við tilgangsleysið: það er óttinn við freistandi hengiflug tómsins." Þráin
eftir guðdómleik mannsins bar dauðann í sér. Kvenhatur Weiningers er
því öðrum þræði sjálfhatur, rétt eins og gyðingahatur hans. Gyðingdóm-
urinn var í hans augum einhvers konar tegundarhyggja, og því versti
fjandmaður þeirrar taumlausu einstaklingshyggju sem hann aðhylltist
sjálfur. Maðurinn er algerlega einn, og hann verður að leita fullkomnunar
einn. Þegar Weininger varð ljóst að hann myndi aldrei ná því marki sem
hann hafði sett sér átti hann ekki annars úrkosta en að fremja sjálfsmorð,
og það gerði hann í fyrstu morgunskímunni þann 4. október 1903 í því
húsi í Vínarborg, þar sem Beethoven dó.
Sjálfskönnun og samfélag
Hvað fól „fullkomnun" eiginlega í sér að dómi Weiningers og félaga hans?
Það er ekki alltaf ljóst en þó virðist sem snillinginn hafi að þeirra dómi átt
að prýða margir þeir eiginleikar, sem feður þeirra höfðu einnig álitið
göfugasta. Sjálft gildismatið var ekki gerbreytt, breytingin fólst miklu
fremur í því að hinir ungu módernistar tóku gildin alvarlega, voru sjálfum
sér samkvæmari. Þeir höfðu fyrir augunum djúpið sem var staðfest milli
hugtaka og lífsreynslu í ríkjandi hugmyndafræði austurríska keisaradæm-
280