Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Blaðsíða 132
Tímarit Máls og menningar
andstæður eru þeir í eðli leiksins miklu
fremur hliðstæður'. Báðir eru trúaðir, í
fyrstu á ljóðið og lækningarmátt þess.
Sú trú Williams helst út allan leikinn en
trú Ezra greinist eða færist yfir á aðrar
lækningaraðferðir á sviði hagfræði og
stjórnmála. Bæði skáldin eru fyrir
„frelsi“ og mátt. Þörfin fyrir nýsköpun
er hjá báðum og hún fer ekki fram bar-
áttulaust.
Með því að Ezra virðist vera meiri
heimsmaður en William og þekkir End-
urreisnina er hann fylgjandi stríði til að
útiloka stríð. Að hans viti og lærdómi er
stríð í þágu friðarins.
I gerð Arna Ibsen er Ezra dálítið
hvellandi bjalla í orðum sínum og ein-
hæfur. En í framrás verksins gerist það
sem Heraklítos frá Efesus hafði tekið
eftir, að í heimi andans hverfur allt að
andstæðu sinni, fyrir bragðið tekur Ezra
völdin af Arna og gerir verk hans ekki
aðeins gott til leiks heldur líka að heill-
andi lesningu: því ef engin þróun hefði
verið hjá Ezra, frá boðbera ljóðlistar í
upphafi, síðan hagfræði sem gerði hann
að áróðursmanni en harmsögumanni í
lokin er óvíst hvort leikurinn hefði heill-
að.
William er að vísu allan leikinn á svið-
inu en það er Ezra sem heldur honum
þar. William stendur þar í ljóðrænum
tíma sem er fortíð í samtíð okkar. Jafn-
framt standa skáldin í sögulegum tíma
og eru tvær hliðar á Bandaríkjunum sem
eru á góðri leið með að stjórna leik
heimssögunnar. Þetta er líklega megin-
tilgangur verksins, sá að bregða upp
táknum en ekki það að segja sögu vin-
áttu sem er harla dularfull og engin
skýring fæst á.
Ezra er bandaríska stefnan sem lagði
heiminn undir sig með því að öðlast
þekkingu á honum og sigraði hann í
fyrstu með því að heilla hann með orð-
list, svo með framleiðslu, síðan með
vopnum. Aftur á móti er William tákn
einangrunarstefnunnar. Þótt hún sé talin
vera afturhaldssöm veldur hún því að
með henni ná þjóðir tökum á andlegum
verðmætum sínum. Það að þannig stefn-
ur fari saman er forsenda fyrir því að
stórþjóðir geti orðið heimsveldi. Þær ná
tökum á eigin möguleikum heimafyrir
og um leið á möguleikum sínum á sviði
alþjóðamála.
Þetta er meginþáttur leiks Arna: hinn
pólitíski. Hann dulbýr skoðanir sínar
með Ijóðrænu yfirbragði, vegna þess að í
ljóðleik er flétta orðanna fremur en
söguþráðurinn það sem laðar áhorfand-
ann að leiknum. Ljóðleikur er því að
miklu leyti hugarleikhús hvers og eins.
I lokin sveigist leikurinn á fjöll
harmsins og lýsir hruni. Einræður Ezra
verða í ætt við Manfreð og hann gengur
örlítið á svið með stuðlunum. William
kallar þetta að hann hafi fundið söng-
röddina. Maður og hugmyndir eru í
rúst. Það er kominn friður, fangelsun og
formfesta á ný. Gömul kona gróðurset-
ur tré fyrir friðinn, en höfundurinn er
svo snjall (eða bölsýnn) að hann lætur
tré friðarins valda striði, vegna þess að
það hjálpar köttunum að komast í (frið-
ar)dúfurnar. Sú var í rauninni kenning
Ezra sem hann hafði frá speki Endur-
reisnarinnar: friður veldur stríði en stríð
skapar frið. Hinn andríki og fjarsýni
Ezra lítur nú á tréð og kettina sem góða
líkingu í ljóði. En höfundur leiksins,
Arni Ibsen, eykur andlega veislu áhorf-
andans með því að láta William (sem er
nærsýnn menningarlega séð) líta á þetta
sem sannleik fyrir þá sök að hann sér
það gerast fyrir utan gluggann en ekki í
hugmyndaheimi eða heilabrotum um
eðli stríða og friðar.
394