Tímarit Máls og menningar - 01.06.1991, Side 84
Stefán Steinsson
Læknasagan
Úti var kyrrt sumarkvöldveður, mjög fagurt, þegar þau bönkuðu upp á
hjá mér á stofunni og færðu mér lík grátandi. Það var af ungum manni,
algerlega hreyfingarlausum. „Hann er dáinn,“ grét ein stúlkan og raunar
var hún sú eina þeirra sem grét að ráði. Hún var unnusta líksins. Hin
snöktu lítillega, eldri systir unnustunnar, eða mér sýndist hún snökta,
sennilega var það vitleysa og maðurinn sem keyrði þeim til mín á vagni
aftan í dráttarvél, hann snökti mjög lítið, sennilega ekki neitt. Ég held
næstum hann hafi glott.
Ég spurði snögglega um tildrög slyssins. Dráttarvélarslys. Ég gekk
þá út að glugganum og horfði lengi út. Hér var hvort eð var lítið hægt að
gera, úr því sem komið var.
„Nei, það var ekki þessi vél,“ sagði maðurinn sem glotti, „þú sérð að
hún er óskemmd.“ Það var rétt, vélin hans var sem ósnert mey, hrein og
strokin enda aldrei í heyskap komið né leðju, aðeins ekið um á klæðningu
þetta sumar. Hann er ekki bóndi nema til gamans.
„Er ekkert hægt að gera?“ spurði stúlkan sem grét.
„Nei,“ sagði ég og sneri mér við.
Þá umlaði líkið og bað um vatn. Ég sá strax, að þau höfðu platað mig
og hann var ekki dáinn. Ég varð ergilegur, varla var það lækni sæmandi
að gá ekki að því sjálfur, hvort gestur hans væri dauður eða lifandi, en
treysta á lýsingar grátandi kvenna, sem kunnu að vera í alls konar skapi.
„Ekkert vatn,“ sagði ég og keyrði honum hratt inn á aðgerðarherbergi.
Hann lá á hjólabekk og sportbóndinn var farinn að glotta meira og
hjálpaði mér nú með hann upp á lítið, settlegt skurðarborð sem notað er
A
82
TMM 1991:2