Gripla - 20.12.2007, Page 87
AM 561 4TO OG LJÓSVETNINGA SAGA 85
6. Lokaorð
Hér að framan voru færð að því rök að síðari hluti Ljósvetninga sögu, þ.e.
Eyjólfs saga og Ljósvetninga og Þórarins þáttur ofsa, hafi aldrei verið í AM
561 4to. Jafnframt var tekið undir skoðanir fyrri fræðimanna um að Sörla þátt-
ur, Ófeigs þáttur og Vöðu-Brands þáttur hafi ekki heldur verið í þessu handriti.
Í 561 hafi aðeins verið fyrri hluti Ljósvetninga sögu án allra þátta sem taldir
hafa verið viðbót við söguna af sumum fræðimönnum. Þar sem umrætt handrit
er eini fulltrúi A-gerðar sem vitað er um, verður auðvitað ekkert fullyrt um
hvort upphafleg A-gerð hafi verið án fyrrnefndra þátta og alls síðari hluta
Ljósvetninga sögu eða ekki.
Af framansögðu má vera ljóst að þörf er á að taka Ljósvetninga sögu og
Reykdæla sögu og gefa þær út að nýju þar sem tekið verður tillit til allra
pappírshandrita sem finnast, en þau eru fleiri en Guðmundur Þorláksson, Finn-
ur Jónsson og Björn Sigfússon vissu um eða létu sér nægja að líta á. Guð-
mundur vissi aðeins af 13 pappírshandritum af Ljósvetninga sögu (Ljósv.
1880:xxiv–xxv, xxviii–xxxii) og Finnur vissi um 14 af Reykdæla sögu
(Reykd. 1881:i–xii) en Björn telur að þau séu yfir 30 af hvorri sögu. Lausleg
talning í handritaskrám leiðir í ljós að þau eru sennilega yfir 40 af Ljósvetn-
inga sögu en e.t.v. eru þau ekki mikið fleiri en 30 af Reykdæla sögu.
Ný rannsókn á Reykdæla sögu ætti að geta leitt í ljós hvort öll pappírs-
handrit sögunnar eru komin út af AM 561 4to eða ekki og leysa gátuna um
niðurlag sögunnar sem er í sumum handritanna en vantar í önnur. Ný rannsókn
á Ljósvetninga sögu ætti einnig að geta leitt í ljós hvort öll pappírshandrit sög-
unnar eru komin út af AM 162 C fol eða ekki, en einnig ætti að vera hægt að
komast að sambandi AM 514 4to og hinna pappírshandritanna. En útgáfa
Ljósvetninga sögu er ekki áhlaupaverk og má í því sambandi minna á orð
Guðbrands Vigfússonar um að það sé ekki fyrir viðvaning að gefa söguna út,
eða eins og hann orðaði það (Origines:348):
one would not be too severe on this work [Ljósv. 1880], for to edit this
Saga is no task for a prentice hand, and the state of the text demands
exceptionally delicate treatment.