Gripla - 20.12.2007, Page 132
GRIPLA
UM ÚTGÁFUNA
Hómilían Á þriðja sunnudag í föstu er eftir Elfrík (Ælfric) síðar ábóta í
Eynsham-klaustri skammt frá Oxford. Ludvig Christian Müller (1835:19-27)
varð fyrstur til að gefa út fornenska textann eftir uppskrift N. F. S. Grundtvigs.
George Stephens (1853:81-99) tók textann úr útgáfu Müllers, og birti hann
andspænis enskri þýðingu sinni. Nú er almennt notuð útgáfa Enska forn-
ritafélagsins (Early English Text Society, EETS), sem John C. Pope sá um
(Pope 1967:264-285). Hómilían er varðveitt heil í átta handritum, og hluti
hennar í einu. Í útgáfu sinni lagði Pope til grundvallar handritið (Q), Corpus
Christi College 188, í Cambridge, og tók upp leshætti úr nokkrum öðrum.
Handritið sem Grundtvig skrifaði upp var (N), Cotton Faustina A. ix, í British
Library. Lítilsháttar orðamunur er á handritunum, og er útgáfa Popes því ekki
alveg samhljóða þeirri sem George Stephens og Gísli Brynjúlfsson notuðu.
Pope tilgreinir helstu frávikin í athugasemdum með útgáfu sinni (Pope 1967:
281).
Fornenski textinn fylgir hér íslensku þýðingunni (Í). En af því að John C.
Pope prentaði textann eftir öðru handriti en lá til grundvallar útgáfu George
Stephens, var ákveðið að birta hann hér eins og Stephens gekk frá honum
1853, að öðru leyti en því að sleppt er bandstrikum sem Stephens bætti inn í
samsett orð. Þetta er því textinn sem Gísli Brynjúlfsson þýddi. Þýðing Gísla er
prentuð eftir útgáfunni frá 1853, en hliðsjón samt höfð af handritum hans.
Engar leiðréttingar eru gerðar á íslenska textanum, nema í nokkrum tilvikum
þar sem rithætti er breytt, sjá skýringar. Athugasemdir sem George Stephens
lét fylgja útgáfunni 1853 eru að hluta teknar upp, sjá hér á eftir, einnig er
nokkrum bætt við sem merktar eru SPÍ. George Stephens birtir í útgáfu sinni
1853 brot úr predikun úr handritinu AM 655 XXI 4to, sem svipar talsvert
til fornenska textans (Þorvaldur Bjarnarson (útg.) 1878:170-171). Brotinu er
sleppt hér.
Í útgáfu sinni fjallar John C. Pope ítarlega um Elfrík, rit hans og handritin
sem notuð voru. Hann telur að þessi hómilía sé samin á árabilinu 992-998
(Pope 1967:146-147), þ.e. um svipað leyti og hómilían um Abgarus konung.
Rökin fyrir því að Elfríkur sé höfundur hennar eru margvísleg. Handritið Q,
sem hefur að geyma besta textann, er talið skrifað eftir öðru sem Elfríkur hafði
undir höndum á efri árum sínum. Auk þess er vísað í aðra hómilíu eftir Elfrík,
og stíll og orðaforði eru einkennandi fyrir hann (Pope 1967:94-105).
130