Gripla - 20.12.2007, Page 135
INNGANGUR
Í APRÍL vorið 2003 fékk ég í hendur bréf sem Árnastofnun hafði borist úr
Ísrael. Bréfinu fylgdu myndir af titilblaði og fáeinum síðum úr handriti. Var
leitað eftir vitneskju um efni þess og gildi. Á titilblaði handritsins stóð að það
væri með hendi Árna Böðvarssonar á Ökrum á Mýrum, sem var afkastamikið
rímnaskáld á 18. öld. Innihaldið reyndist vera Snorra-Edda í gerð frá 17. öld,
nokkur Eddukvæði, kveðskapur þeim skyldur og ýmislegt fleira. Eigandanum,
Erán Reiss að nafni, var bókin í fyrstu ekki útbær, en leitaði eftir skiptum á
henni og handritum með gyðinglegu efni, sem eðlilega á best heima í Ísrael.
Slíkt er ekki til hérlendis því að Ísland er eitt meðal fárra landa, þar sem
Gyðingar hafa engum rótum skotið. Eftir nokkur bréfaskipti og við nánari
íhugun og skoðun málsins komst eigandinn að þeirri ágætu niðurstöðu að
íslenskt handrit væri líka best komið á Íslandi. Ísraelskur fræðimaður, sem
stundum hefur dvalið hér á Árnastofnun, Itamar Even-Zohar að nafni, skoðaði
handritið og var það síðan keypt fyrir tilstyrk Arnar Arnars læknis. Reyndist
hann sem oft áður stofnuninni haukur í horni og er honum hér með þakkaður
þessi rausnarlegi styrkur. Velvilji manna eins og hans er stofnuninni ómetan-
legur og reyndar allri menningarstarfsemi hérlendis sem annars staðar. Hand-
ritið hefur ekki enn fengið númer.
Hér verður gerð grein fyrir sérstæðum ferli handritsins. Síðan verður greint
frá Árna Böðvarssyni, skrifara þess, og helstu ritverkum hans, og þar á eftir
nokkuð sagt frá innihaldi handritsins og efni. Að lokum verður getið aðeins
um forrit Edduefnis í handritinu og óleyst verkefni um varðveislu þeirra
kvæða, sem oft fylgja Eddukvæðasafninu.
EINAR G. PÉTURSSON
AKRABÓK
Handrit að Eddum með hendi Árna Böðvarssonar á Ökrum
og hugleiðingar um handritarannsóknir á Eddunum
Gripla XVIII (2007): 133–152.