Gripla - 20.12.2007, Page 138
GRIPLA136
síðar í Blaine í Washingtonríki.10 Fyrrnefndur Sauðkrækingur benti mér á, að
Nelson Gerrard í Kanada myndi e. t. v. vita meir um Daníel og sagði hann mér
í bréfi 22. nóv. 2003 af grein um hann. Þar stendur að Daníel hafi verið fæddur
1848, þ. e. tveimur árum fyrr en að framan gat, „að Ytra-Skógarnesi í Hnappa-
dalssýslu“. Hlýtur hér að vera um sama mann að ræða, þótt tveimur árum
skeiki um fæðingarárið. Menn voru ekki alltaf svo nákvæmir um slíkt á fyrri
tímum. Um feril Daníels segir orðrétt í greininni:
... eitthvað var hann í Winnipeg. Vestur að hafi til Seattle fór hann
1892. Var þar næstu ár. Þaðan flutti hann til Marietta, Wash. og var þar
rúm 5 ár. En til Blaine 1907. Keypti nokkrar ekrur sunnan við Blaine
og bygði sér þar laglegt heimili. Og þar lézt hann 1923. Daníel var að
ýmsu leyti mjög merkur maður, prýðilega greindur og las mikið og
vel.11
Af þessu eru ljósir megindrættirnir í sögu handritsins. Það var skrifað rétt fyrir
miðja 18. öld vestur á Mýrum, þaðan fer það upp úr 1830 í Miðdali í Dölum
og síðar út á Hellissand eða á utanvert Snæfellsnes. Næst er vitað um það á
vesturströnd Bandaríkjanna í lok 19. aldar, en ekki er vitað hvaðan af Íslandi
það barst né hvernig það fór til Ísrael. Ósvarað er þeirri spurningu, sem væri
mjög gaman að fá svar við, hvort það hafi farið yfir Kyrrahafið og þar af
leiðandi alla leið kringum hnöttinn.
Það eru ekki tíðindi að mikið af handritum og bókum hafi farið úr landi
með Vesturförum. Haft hefur verið á orði, að bókakistur landnemanna hefðu
verið fyrirferðarmesta eign sumra og þar hefði margt fágætt handrit flotið
með. Árið 1930 skrifaði Halldór Hermannsson grein í Almanak Ólafs Thor-
geirssonar og bað landa sína vestra að skoða vel gamlar bækur, því að mögu-
legt væri að þar gætu leynst prentaðar bækur íslenskar úr prentsmiðju Guð-
brands biskups Þorlákssonar eða jafnvel eldri.12 Einnig eru mörg dæmi um að
í handritum að vestan hafi borist gamlir textar, ella ókunnir á Íslandi.
Ak er nú komin til Íslands úr Ísrael eftir viðdvöl í Vesturheimi og vekur
vonir að fleiri handrit eigi enn eftir að koma í leitirnar þar og víðar.
10 Eyja- og Miklaholtshreppur. Ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900. Ritstjóri
Þorsteinn Jónsson. Rv. 2000. s. 203.
11 Margrét J. Benedictsson. “Safn til landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi. Íslendingar á
Kyrrahafsströndinni.” Almanak Ólafs Thorgeirssonar. 34 (1928). s. 88–89.
12 Halldór Hermannsson. “Prentsmiðja Jóns Matthíassonar.” Almanak Ólafs Thorgeirssonar. 36
(1930). s. 37.