Gripla - 20.12.2007, Page 188
GRIPLA
að fræðast meira um tilbrigði textans, sbr. hugtakið „der unfeste Text“ sem á
íslensku mætti kalla síbreytilegan texta. Hér kemur andmælandi vissulega að
mjög áhugaverðu sviði sem höfðar ekki síst til þeirra sem fengist hafa við
útgáfu á textum sem varðveittir eru í handritum. Sjálf hef ég um árabil unnið
að útgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar, ásamt Svanhildi Óskarsdóttur og
Kristjáni Eiríkssyni, gefið út þrjú bindi með kvæðum hans og sálmum og
fengist við drjúgan hluta þeirra 600 handrita sem varðveita verk hans. Mér er
því fyllilega ljóst hversu áhugavert er að rannsaka verk Hallgríms í ljósi þess
hvernig þau hafa breyst og varðveist og leyfi mér að benda á að um þetta hef
ég fjallað á öðrum vettvangi, bæði í inngangi að fyrsta bindi útgáfu minnar á
verkum Hallgríms (Margrét Eggertsdóttir 2000) og í greininni „Handrit og
varðveisla verka sr. Hallgríms Péturssonar“ (Margrét Eggertsdóttir 1997). Í
inngangi að 1. bindi útgáfunnar segir:
Vissulega er fróðlegt í sjálfu sér að skoða breytingar sem verða á text-
um í handritum, hvernig menn áttu það til að misskilja það sem þeir
lásu og hvernig menn hafa stundum sætt sig við brenglaðar uppskriftir.
Eflaust verða allir textar fyrir einhverjum breytingum þegar þeir eru
skrifaðir upp en hafa ber í huga að sá munur er á bundnu máli og lausu
að hvert einstakt orð er mikilvægara í bundnu máli; ekki síst þegar
form kvæðisins er flókið og strangt með innrími, endarími og fleiru
þess háttar [...] (Margrét Eggertsdóttir 2000:xv).
Í innganginum ræði ég ennfremur um þá staðreynd að Hallgrímur Péturs-
son virðist sjálfur hafa verið sér þess vel meðvitandi að textar brengluðust í
uppskriftum og fer beinlínis fram á það í inngangi Passíusálmanna að orðalagi
hans verði ekki breytt: „En þess er ég af guðhræddum mönnum óskandi að
eigi úr lagi færi né mínum orðum breyti [...]“ (JS 337 4to, 1v). Hann kvartar
einnig yfir því í vísu að svo miklar breytingar hafi orðið í uppskrift á texta
Króka-Refs rímna sem hann orti, að hann þekki þær varla aftur.
Í greininni fjalla ég m.a. um ákveðið erindi, eignað Hallgrími Péturssyni,
sem í sumum handritum er hluti af erfikvæði en í öðrum hluti af hamingjuósk,
og enn öðrum sjálfstætt kvæði og virðist þannig gegna mismunandi hlutverki
eftir aðstæðum. Fleiri dæmi um breytingar á texta í handritum hefði verið
hægt að nefna en að mínu mati tengist sú umræða ekki beinlínis meginmark-
miði ritgerðarinnar. Engu að síður er ég sannfærð um að það hafi aukið mjög
gildi rannsóknar minnar að ég vann samtímis að útgáfunni og þekki vel
handrit og varðveislu verka Hallgríms Péturssonar.
Loks minnist andmælandi á athyglisverðar kenningar Stinu Hansson o.fl.
186