Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 32
Aðrir áheyrendur — önnur saga?
Um ólíkar frásagnir Vatnsdælu og Finnboga
sögu af sömu atburðum1
GÍSLI SIGURÐSSON
íslendingasögur greina stundum frá atburðum sem eru kunnir úr fleiri en einni
sögu og geta frásagnir þessar verið misrækilegar eða jafnvel ósamhljóða. Við
fornsagnarannsóknir hafa einkum verið farnar tvær leiðir til að skýra samband
slíkra frásagna: annaðhvort er lögð megináhersla á að rekja hvers konar ósamræmi
til munnlegrar geymdar, þar sem sögur eru sagðar ólíkum hópum fólks við ólík
tækifæri á ólíkum tímum, eða meira er gert úr því að rithöfundar hafi lagað efni
sagnanna í hendi sér. Seinni leiðin felur í sér að rittengsl séu, að vissum skilyrðum
uppfylltum, að öllu jöfnu sennilegri skýring en sameiginlegur uppruni í munn-
legri geymd. Aðferðir við mat á sambandi sagna hafa verið nokkuð á reiki en Jónas
Kristjánsson hefur dregið saman þrjú helstu rök fyrir rittengslum: „1) Fleiri en
eitt sameiginlegt efnisatriði. 2) Að nokkru leyti sama röð efnisatriða. 3) Sameig-
inlegt orðalag."2 Munnlegri geymd hefur fremur verið haldið á loft ef nokkrir
efnisþættir eru svipaðir en orðalagslíkindi lítil sem engin, efnisröð ólík og nöfn
ekki þau sömu.3
Viðhorf manna til skyldleika einstakra kafla í ólíkum sögum hafa einnig ráðist
af þeirri heildarkenningu sem þeir styðjast við um uppruna fornsagna. Þannig
hafa bókfestumenn verið hallari undir rittengsl því að þau falla betur að þeirri
mynd sem þeir hafa dregið upp af höfundum Islendingasagna að semja og setja
saman bækur sínar úr margvíslegum ritheimildum. Fylgismenn nýsagnfestu hafa
aftur á móti oft talið heppilegra að gera ráð fyrir munnlegri geymd sagna þar sem
bókfestumenn sjá óyggjandi rittengsl. Þeir telja sig þá m.a. losna við að halda fram
ósannanlegri tilvist glataðra heimildarrita og álíta tryggara að benda fremur á hina
ósannanlegu munnlegu hefð.4 Hugmyndir um munnlega hefð styrkjast enn
1 Grein þessi er hluti af verkefni sem styrkt var úr Vísindasjóði. Hún var kynnt í enskri gerð á
ráðstefnu í Freiburg 25.-27. júní 1992, „Text und Textualitát, Medialitát und Zeittiefe" og
hefúr birst þar í ritröðinni ScriptOralia. Ég naut góðs af ágætum athugasemdum sem þar komu
fram í umræðum. Einnig vil ég þakka Örnólfi Thorssyni og Vésteini Ólasyni sem lásu greinina
yfir í handriti og bentu mér á margt sem betur mátti fara.
2 Um Fóstbrairasögu, Stofnun Árna Magnússonar (Rit 1), Reykjavík, 1972, bls. 225.
3 Sbr. umfjöllun Óskars Halldórssonar um skyldleika Landnámu og Hrafnkels sögu á bls. 15-25
í Uppruna og þema Hrafrkels sögtt, Rannsóknastofnun í bókmenntafræði (Fræðirit 3), Hið
íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 1976.
4 Sjá til dæmis 5. kaflann, „Critical Considerations“, í bók Theodore M. Andersson Tbe Problem
oflcelandic Saga Origins, New Haven and London, Yale University Press 1964, bls. 82-119. Af
öðrum ritum sem leggja áherslu á hlut munnlegrar hefðar má nefna: Robert Scholes & Robert
SKÁLDSKAPARMÁL 3 (1994)