Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 56
54
Ármann Jakobsson
berjast enda er nafn bæjarins vísun í Snorra-Eddu. Þessi kafli sýnir að Sturla
Þórðarson kann vel að beita háði þegar hann deilir á ófrið og hernað Sturlunga-
aldar.
3. AJstaðan til dauðans
Einnig má sjá í íslendingasögum skýra afstöðu til dauðans. Hetjan stendur þá
frammi fýrir vali milli lífs og dauða og velur einatt dauðann og þar með sæmdina.
Þetta viðhorf kemur hvergi skýrar fram en í eftirfarandi orðum Bjarnar Hítdæla-
kappa:
tveir eru kostir fyrir höndum, annar að fá sigur með karlmennsku, þó að það sé ólíklegt,
við þann sem að berjast er en hinn er annar að falla með drengskap og hugprýði og er
það betra en að lifa með skömm og þora eigi að vinna konungi sínum sæmd (Bjarnar
saga, 1F.III, 121)
Hetjan óttast ekki dauðann. Orðstírinn er hið eina sem skiptir kappann máli,
„eina haldreipi mannlegrar reisnar á banastundinni". Eins og Bjarni Guðnason
hefur bent á er sjaldan eða aldrei sveigt frá þessari kröfii í Islendingasögunum.
Afstaðan til dauðans virðist ævinlega ein og hin sama.56 Illugi, bróðir Grettis, er
einn mesti kappi sagnaheimsins. Hann er vart kominn af barnsaldri þegar hann
sýnir þá fullkomnu staðfestu að neita að semja við banamann bróður síns og segir:
„kýs eg miklu heldur að deyja.“ Hann hlær þegar hann fréttir að honum sé ætlaður
dauðinn einn og segir: „Nú réðu þér það af er mér var nær skapi.“(Grettis saga,
IF, VII, 263) Jafnvel fulmenninu Þorbirni öngli er- illa við að vega svo ungan
mann en Illugi notfærir sér það ekki. Hetjunni er dauðinn ávinningur.
Illugi og Björn Hítdælakappi eru ekki einir. Eyvindur Bjarnason er ekki fyrr
kominn til íslands en hann er eltur af fjölmenni. Hans einu viðbrögð eru að
þykjast ekki vita hverjir þetta séu og segja: „Eigi mun eg flýja“ (Hrafnkels saga,
129). Eyvindur tekur engum rökum. Hinn fullkomni hetjuskapur er í hróplegri
andstöðu við heilbrigða skynsemi. Hetjan rís þess vegna aldrei hærra en þegar hún
kastar frá sér bæði gáfiim, tryggð, stillingu og öðrum dyggðum og gefur sig
hetjuskapnum á vald með ofsa.57 Þannig fer fyrir Eyvindi Bjarnasyni þegar hann
er kappi á besta aldri. En margt virðist benda til að persónur íslendingasagna verði
ekki deigari með árunum. „Enn skal þessi hinn gamli þora að sjá í mót vopnum,“
segir Helgi Harðbeinsson þegar seinustu sandkornin renna niður stundaglas hans
(Laxdæla saga, IF, V, 192). Þessi hetjulega afstaða til dauðans gengur eins og
rauður þráður gegnum Islendingasögurnar svo að jafnvel gamalmenni eins og
Helgi og smábarnið Þórður Kárason í Njálu hrífast með og kjósa heldur dauðann
56 Bjarni Guðnason, „Sögumynstur hetjudauðans," Timarit Háskóla íslands, 5, 1990, bls. 97.
57 Charles Moorman benti á þetta í bók sinni Kings and Captains. Variations on a Heroic Theme,
Kentucky, 1971, bls. 26-27. Þar er hann að bera saman Akilles, hina fullkomnu hetju, og
Odysseif, sem aldrei getur risið jafn hátt sem hetja vegna þess hve skynsamur hann er. En þetta
á ekki síður við Islendingasögurnar. Nákvæmlega þess vegna er Gunnar hetja en ekki Njáll.