Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 40
38
Gísli Sigurðsson
hans og síðan hrint honum í veislu þar sem Þorsteinn var sjálfur helsti virðingar-
gestur. Hann bregst fyrst við þegar hann er niðurlægður með orðum.23 Það fellur
hins vegar ekki að ímynd goðans að ganga á hólm við aðra menn og því tekur
hinn herskái bróðir það hlutverk að sér og heitir því að berjast fyrir þá báða um
leið og hann fer niðrandi orðum um Berg.
í Finnboga sögu halda Hofsbræður brúðkaup systurdóttur sinnar að Hofi og
gifta hana frænda Þorkels í móðurætt, Grími á Torfustöðum. Bæði Grímur og
bræðurnir Þórir og Þorsteinn bjóða Finnboga til veislunnar. Þeir Bergur fara síðan
í hríðarveðri og brjótast yfir Vatnsdalsá: „Var hún allólíkleg til yfirferðar. Var
krapaför á mikil en lögð frá löndum." (34:656) En nú bregður svo við að Bergur
er ekki sami kraftajötunninn og í VatnscUla sögu, heldur hangir hann í belti
Finnboga sem syndir með þá báða yfir ána — og minnir sund þeirra á það þegar
Loki/Þjálfi hékk í belti Þórs í sögunni af för Þórs í Geirröðargarða (í 27. kafla
Skáldskaparmála og Þórsdrápu).
í sjálfri brúðkaupsveislunni hrindir Jökull Bergi að eldinum, án sýnilegrar
ástæðu, og Bergur rekst á Kol, ódælan ráðamann að Hofi, sem hrindir honum
aftur. Finnbogi réttir hlut frænda síns og þiggur gjafir af Þóri og Þorsteini til að
koma á sáttum en það stoðar lítt og þeir Bergur og Kolur eigast illt eitt við. Ekki
segir frekar af þessum illindum nema að hólmgangan er ákveðin og er athyglisvert
að Jökull ætlar sér Finnboga en goðinn Þorsteinn skorar Berg á hólm.
Vatnsd&la saga lýsir hólmstefnunni nokkuð rækilega, vísar jafnvel til goðsagna
með því að láta nöfn persóna minna á goðin. Þegar nær dregur stefnunni er
Þorsteinn með vinaboð og frilla Bergs dregur kjark úr þeim frændum með því að
benda á hamingju Ingimundarsona, sem birtist í viti og gafii Þorsteins og
bersersks-náttúru Jökuls. Bergur mótmælir því ekki að hann hafi litla von gegn
þeim Ingimundarsonum en hann getur ekki annað en risið gegn orðum Jökuls:
„Mikið hefir Jökull um mælt svo að mér er það eigi þolanda.“ (33:1884) Hann
er m.ö.o. ekki lengur að hefna höggsins í veislunni að Skíða heldur opinberum
yfirlýsingum Jökuls á þingi.
Þrátt fyrir óveður á hólmgöngudaginn koma þeir Ingimundarsynir til stefn-
unnar og hafa goðmagnað sig mjög til fararinnar. Jökull tekur til dæmis Þorstein
bróður sinn með þó að hann hafi sjálfur heitið því að sjá um bardagann. Þeir
koma fram sem einn maður og sýna tvær hliðar goðans, Jökull sér um fram-
kvæmdir en Þorsteinn situr á valdastóli. Að nokkru leyti minna þeir því á tvö
meginhorf Óðins, sem goðinn er fulltrúi fyrir, og styrkist sú hugmynd af nöfnum
förunautanna: Þóris (sem minnir á nafn Þórs) og Faxa-Brands sem á hestinn
Freysfaxa. Þannig hafa handhafar goðavaldsins, Þorsteinn og Jökull, fengið til liðs
við sig þau goðmögn sem standa næst Óðni, Þór og Frey, og má þá búast við að
lítið verði úr vörnum þeirra Finnboga utan að sagan lætur í það skína að
Sbr. grein Helgu Kress „Staðlausir stafir: Um slúður sem uppsprettu frásagnar í íslendingasög-
um“, í Skírni 165 (vor 1991), 130-156, þar sem hún leggur áherslu á að persónur íslendinga
sagna bregðist sterkar við niðurlægjandi orðræðu en athöfnum.