Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 72
70 Ármann Jakobsson
Sigurvegurunum er hér lýst sem ofbeldismönnum og ræningj um en ekki köppum
eða hetjum.
Sturla Sighvatsson verst lengi og „alldrengilega“ (420) og er mikið sótt að
honum. Hann hefur það vopn „er Grásíða hét, fornt og ekki vel stinnt málaspjót.“
Verður það að teljast undarlegt að slíkur höfðingi sem Sturla er skuli velja sér svo
lélegt vopn til varnar í stórorustu. Mörg dæmi eru um það í íslendingasögum að
hetjan hefur slæmt vopn til að auka á hetjuskap hennar. Hér er tilgangurinn
fremur að sýna fram á ráðleysi Sturlu Sighvatssonar. Hann er feigur maður. En
hann verst vel og tekur frændi hans sérstaklega fram að hann hafi lagt „svo hart
með því jafnan að menn féllu fyrir en spjótið lagðist og brá hann því undir fót sér
nokkurum sinnum.“ Fer svo að Sturla fellur og hlýtur þrjú alvarleg sár sem er
ýtarlega lýst. Húnröður nokkur leggur spjóti í hægri kinn Sturlu „og nam í beini
stað“, Hjalti byskupsson í vinstri kinn „og skar spjótið úr tungu og var sárið
beinfast" og Böðvar kampi í kverkur Sturlu og renndi upp í munninn. Sturla hefur
því verið alblóðugur í framan þegar hér er komið sögu og heldur óglæsilegur á að
líta. Því er varla nema von að hann sé „þrotinn af mæði og blóðrás. “(421) Samt
nær hann að leggja til eins manns svo að hann fellur við en verður að lokum að
biðja sér griða. Hann er þá vart talandi lengur og sennilega dauðvona. Mildi þeirra
manna sem aðstoða hann, þ. á m. frænda Gissurar og mágs, myndar andstöðu
við það grimmdarverk sem á eftir kemur.
í því kemur Gissur aðvífandi, kastar af hinum særða manni hlífúnum og og
segir: „Hér skal eg að vinna.“ Síðan heggur hann í höfuð Sturlu fyrir aftan eyrað
og er því sári lýst. Þá bætir Sturla Þórðarson við og fellir þannig ákveðinn dóm
yfir Gissuri: „Það segja menn þeir er hjá voru að Gissur hljóp báðum fótum upp
við er hann hjó Sturlu svo að loft sá milli fótanna og jarðarinnar.“ Hér er stillilega
sagt frá enda eru frekari gífuryrði óþörf. Gissur vegur hér að liggjandi manni,
hugsanlega dauðvona, og ofsinn er svo mikill að hann hoppar upp þegar hann
slengir öxinni í höfúð Sturlu. Hér er gert mikið úr reiði Gissurar en reiði er ein
af sjö dauðasyndum í kristni. Þetta er eitt fjölmargra dæma um kristinn hugsun-
arhátt í texta Sturla Þórðarsonar. Sturla fellir engan dóm yfir verkinu en er síður
en svo að draga fjöður yfir hið ógeðslega. Hann segir frá því að Klængur
Bjarnarson, frændi Gissurar, leggur í kverkur Sturlu og fleiri verða til að misþyrma
lfkinu. Síðan lýsir hann sárinu samviskusamlega. Hann segir frá hvernig líkið er
rænt öllum verðmætum og flett klæðum „svo að bert var.“(422)
Þegar foringinn er fallinn snúa þeir Gissur og Kolbeinn sér að þeim sem flýðu
í kirkju á Miklabæ. Þeim eru öllum gefin grið nema sex. Það er farið að rökkva
þegar þeir eru leiddir til höggs, til samræmis við sálarástand hinna dauðadæmdu.
Sturla Þórðarson fær sjálfur grið og lýsing hans á atburðunum ber glöggt vitni um
andúð hans á þessum aftökum sem hann hefúr sennilega horft á. Hann gerir mikið
úr hugprýði Kolbeins Sighvatssonar sem glettist með dauða sinn og Þóris jökuls
sem kveður vísu áður en hann leggst undir höggið, vísu sem lifir bæði hann og
hinn ónafngreinda mann sem hjó hann. Hann dregur fram æsku Þórðar Sighvats-
sonar, bæði með bón Kolbeins Sighvatssonar um að fá að deyja fyrst og með því