Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 47
Sannyrði sverða
45
getið.18 Sjálfur bregður hann aldrei upp mynd af sér með vopn í hendi en gerir
þvert á móti lítið úr eigin þætti í þeim átökum sem hann átti hlut að, t.d. í vígi
Klængs Bjarnarsonar (bls. 72). í Örlygsstaðabardaga virðist hann hafa leitt
flóttann en lítið sem ekkert barist. Þannig hefur Sturla frá upphafi verið lítill
vígamaður og þegar hann færir íslendinga sögu í letur leikur enginn vafi á því að
hann er orðinn eindreginn friðarsinni. Meðferð hans á vígaferlum og bardögum
tekur af allan vafa um það. í íslendinga sögu er ekki að fmna neitt tilvik þar sem
hann lýsir ófriði og vígaferlum lofsamlega.19
Aftur á móti hafa fræðimenn lengi lokað augunum fyrir stöðu Sturlu sem
lögmanns konungsveldisins og margir hverjir talið hann einn harðasta andstæðing
konungs á árunum 1241—1263.20 Stafar það ekki síst af því að þegar Sturla fer í
fyrsta sinn til Noregs árið 1263 hafði hann á sér reiði Hákonar konungs og gat
jafnvel átt von á dauða sínum. Hann hafði hins vegar lag á að snúa málum sér í
hag, var tekinn í sátt og settur til að rita sögu konungs.21 Nýlega hafa menn tekið
að efast um andstöðu Sturlu við konung og meinta þjóðerniskennd hans. Helgi
Þorláksson hefur bent á að þegar Sturla fylgdi frænda sínum Þórði kakala hafi
hann að sjálfsögðu lent í andstöðu við Þorgils skarða og Noregskonung þar með.22
Aftur á móti hafi hann síðar gerst maður Gissurar jarls og svarið konungi eið við
Þverá 1262. Því sé hæpið að gera hann að fulltrúa einhverra afla sem alla tíð hafi
haft illan bifur á konungsvaldi. Líklegra sé að hann hafi talið innlent jarldæmi
heppilegustu lausnina. Þetta sé í fullu samræmi við ákvæði Gamla sáttmála um
innlendan jarl sem bundinn sé þingvaldi bænda sem Helgi telur anga af því sem
hann kallar þingvaldsstefnu.
Helgi telur orsakir þess að Sturla féll í ónáð konungs árið 1263 ekki vera
andstöðu hans við norska konungsveldið heldur tilraunir hans til að verða
höfðingi í Borgarfirði sem leitt hafi til uppreisnar gegn mönnum konungs,
Þorgilsi skarða og Hrafni Oddssyni. Hann bendir á að sem stjórnmálamanni svipi
Sturlu að mörgu leyti til Talleyrands hins franska og fleiri stjórnmálamanna sem
af flestum eru taldir bragðarefir enda þótt Sturla hafi ekki slíkt orð á sér og sé
yfirleitt lýst „sem dyggðum prýddum heiðursmanni, nánast vammlausum". Hins
vegar sé fráleitt að ætla Sturlu þjóðernisvitund rómantískra frelsishetja 19. aldar
enda hafi þjóðríki ekki verið til á hans tíma og trúnaður manna verið við fúrsta
og konunga en ekki þjóðir. Niðurstaða Helga er þvf sú að Sturla hafi ekki verið
18 Gunnar Benediktsson, ísland hefur jarl. Nokkrir örlagaþattir Sturlungaaldar, Reykjavík, 1954,
bls. 128.
19 Guðrún Nordal, „Eitt sinn skal hverr deyja,“ bls. 75.
20 Sigurður Nordal, „Formáli," Flateyjarbók, III, Akranes, 1945, xiii; Finnur Jónsson, Den oldnor-
ske ogoldislandske litteraturshistorie, Kaupmannahöfn, 1894-1902, bls. 98 og 720-721; Gunnar
Benediktsson, Sagnameistarinn Sturla, bls. 135-147; Guðni Jónsson, „Sagnameistarinn Sturla“
(ritdómur), Tímarit Máls og menningar, 23, 1962, bls. 181; Björn Þorsteinsson, íslenska
skattlandiS, Reykjavík, 1956, bls. 26.
21 Frá þessu segir í Sturlu þætti (759-769).
22 Helgi Þorláksson, „Var Sturla Þórðarson þjóðfrelsishetja?" í Sturlustefna, Reykjavík, 1988, bls.
127-145.