Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 49
Sannyrði sverða
47
sessi eins og Hákon gamli gerði 1247. Hvað hið heilaga rómverska ríki og
lénsskipulagið varðar var hugmyndafræðin á bak við það ósamrýmanleg fullveldi
einstakra ríkja Evrópu. A þessum tíma voru páfi og keisari oddvitar hins kristna
heims og gjarnan lénsdrottnar annarra konunga auk þess sem þeir gátu verið
lénsmenn hver annars. Ríkishugtakið verði fyrst til um 1200 en styrkist mjög á
þeirri öld. Hins vegar hafi ríki ekki verið til óháð þjóðhöfðingja sínum.
Svipað ástand ríkti á Islandi. Þjóðveldisskipulagið var losaralegt og hvergi getur
um að Alþingi eða Lögrétta hafi komið fram fyrir þjóðina út á við eða sem stofnun.
Þvert á móti eru allir höfðingjar landsins látnir sverja konungi hollustueiða
1262-1264 og ekki allir á Alþingi. Sigurður telur að höfðingjar landsins hafi viljað
viðhalda þessu fyrirkomulagi og ekki viljað fá erkibyskup inn í landið af þeim
sökum. Af svipuðum ástæðum hafi þeir verið fúsari að fylgja höfðingja sem var
langt í burtu en öðrum nálægari.28 Hann telur vafasamt að eigna þeim einhverja
þjóðernisstefnu. Þeir hafi fyrst og fremst hugsað um eigin völd og hagsmuni.29
Með þetta í huga verður að meta afstöðu Sturlu Þórðarsonar til erlends
konungsvalds. Einnig verður að hafa það hugfast að þjóðfélagsskipan íslendinga
var einstæð og í andstöðu við þær stjórnarkenningar sem höfðu rutt sér til rúms
í hinum rómversk-katólska heimi þar sem keisari eða konungur réð veraldlegum
málum en kirkjan andlegum. Þegar vegur kirkjunnar óx sóttu þessar kenningar á
enda þótt hin rótgróna ættarskipan hindraði að einn Islendingur næði yfirráðum
yfir landinu.30 Sturla sjálfur hefur það eftir Vilhjálmi kardínála af Sabína í
Hákonar sögu að hann „kallaði ósannlegt að land það þjónaði ekki undir einhvern
konung sem öll önnur í veröldinni"31 og sennilegt er að sú skipan hefði aldrei
viðgengist til lengdar. Þess vegna fóru Sturla Þórðarson og samtíðarmenn hans þá
einu leið sem þeim var fær þegar þeir sömdu við Noregskonung fremur en að
lenda í stríði við hann.
Það hefur verið venja hér á landi að líta á sáttmálann við Noregskonung
1262-1264 sem mikið óhappaverk. Þá misstu Islendingar sjálfstæði sitt úr
greipum og seldu sig undir erlent vald næstu sjö aldir. En það var ýmislegt sem
vannst við þennan samning. Hákon Hákonarson hafði komið á friði í Noregi og
sæmilegur friður kemst einnig á hér á landi eftir 1264. Skipaeign íslendinga
hverfur úr sögunni upp úr 1200 og verslun kemst í hendur Norðmanna svo að
Islendingar voru löngu orðnir háðir Norðmönnum á viðskiptasviðinu árið
1262.32 Þeir voru því í engri aðstöðu til að deila við Noregskonung.
Mestu máli hefur þó skipt Sturlu Þórðarson og samu'ðarmenn hans að binda
enda á ófrið og vígaferli Sturlungaaldar. Til þess áttu þeir engin ráð önnur en að
~8 Þetta viðhorf kemur fram hjá Hræreki konungi í Heimskringlu og er ef til vill einnig að baki
hjá Einari þveræingi í sama verki (Heimskringla, II, Bjarni Aðalbjarnarson gaf út (íslenzkfiomrit,
XVII), Reykjavík, 1945, bls. 47 og 216).
29 Sigurður Líndal, „Utanríkisstefna íslendinga", bls. 28-30.
30 Jón Jóhannesson, „Um Sturlunga sögu“, bls. viii.
31 Hákonar saga Hákonarsonar, Marina Mundt gaf út, Osló, 1977, bls. 144.
Jón Jóhannesson, „Um Sturlunga sögu“, bls. x.