Skáldskaparmál - 01.01.1994, Blaðsíða 39
Aðrir áheyrendur — önnur saga?
37
slær í sundur spjót hans með mykireku. Eftir að Jökull hefur særst á ristinni af
spjóti Þorkels og reynt bitleysi sverðs síns stendur Svartur yfir honum með reidda
rekuna, tilbúinn að slá, svo að Jökull sér þann kost vænstan að ríða brott!
Það er ekki fyrr en eftir að þessar deilur eru komnar af stað að Bergur kemur
til sögunnar, gervilegur maður og fríður sýnum, ásamt Döllu konu sinni en um
hana er sagt að hún „var kvenna vænst og kynstór og kvenna högust á alla hluti.“
(33:656) Þau hjón eru m.ö.o. nokkuð ólík Bergi og frillu hans í Vatnsdœla sögu.
Báðar sögurnar greina síðan frá brúðkaupi um vetur í Vatnsdal þar sem
andstæðum fylkingum slær saman. Aðdragandi veislunnar, tilhögun boðsins og
upphaf illinda er þó með sínum hætti í hvorri sögu. í Vatnsdalu er brúðkaupið
haldið hjá Skíða í Vatnsdal. Brúðguminn er úr Víðidal og hefur boðið þeim
Finnboga og Bergi, án þess að ástæða boðsins sé tilgreind, en Ingimundarsonum
er boðið vegna þess að brúkaupið þykir „eigi með fullum sóma nema þér komið“
(32:1882) eins og Skíði segir í boðsorðum sínum. A brúkaupsdaginn er veðrátta
„eigi algóð og illt yfir Vatnsdalsá" (32:1882) en Bergur sýnir krafta sína og
ofurkapp með því að bera fólk yfir ána í miklu frosti og kemur því allur frosinn
utan í vel kyntan skálann að Skíða. Andstæðurnar á milli frosts og funa, úti og
inni, koma líka fram í Bergi sem er heitt í hamsi í veislunni þó að klæðin séu frosin
á honum. Andspænis þessum grófleika stendur lítillæti Þorsteins sem gengur um
beina í veislunni þó að hann sé þar mestur virðingarmaður og eigi að sitja í öndvegi
gegnt Finnboga.
Þar kemur að Bergur hrindir Þorsteini til að komast að eldinum og ekki stendur
á viðbrögðum hjá Jökli, sem bregst við móðgunum fyrir hans hönd og sér um að
gera það sem sæmir ekki hinum vinsæla goða: lýstur Berg með ættarsverði þeirra
bræðra, Ættartanga. A meðan nýtur Þorsteinn virðingar sinnar og býður síðan
fébætur fyrir bráðlæti Jökuls. Þannig gegnir Þorsteinn hlutverki hins lítilláta og
sanngjarna dómara og goða sem er stórlátur af búi sínu en Jökull sér um mannleg
viðbrögð fyrir hönd bróður síns. Til að undirstrika samstöðu þeirra má benda á
að Jökull hefur ættarsverð þeirra beggja að vopni og segist vera að verja goða þeirra
Vatnsdæla, þ.e. hið opinbera hlutverk bróður síns, en Þorsteinn talar um bráðræði
Jökuls bróður síns.
Til bóta fyrir högg Jökuls býðst Þorsteinn til að lítillækka sig með því að ganga
undir jarðarmen á Húnavatnsþingi en hættir við þegar Bergur móðgar hann með
því að segja: „Svínbeygði eg nú þann sem æðstur var afVatnsdælum.“ (33:1883)22
Við þessi orð neitar Þorsteinn að ganga lengra og stefnir í fúllan fjandskap þannig
að Finnbogi skorar Þorstein á hólm og Bergur Jökul. Hér er athyglisvert að
Þorsteinn hefur hingað til látið átölulaust þó að Bergur hafi fyrst ekki virt valdsvið
22 Orð Bergs minna á orð Hrólfs kraka þegar hann laeturAðils Svíakonung beygja sig eftir hringnum
Svíagrís: „Svínbeygða ek nú þann sem Svíanna er ríkastur.“ (bls. 79 í 2. bindi Fomaldarsagna
Norðurlanda, útg. af Guðna Jónssyni og Bjarna Vilhjálmssyni, Bókaútgáfan Forni, Reykjavík
1944.) Snorri Sturluson tekur sama tilsvar upp í 54. kafla Skáldskaparmála: „Svínbeygt hef eg
nú þann er ríkastur er með Svíum!“ Óvíst er um bein tengsl Vatnsdælu og Hrólfs sögu kraka og
er allt eins líklegt að hér sé um almennari vísun í sagnahefðina að rseða.