Skírnir - 01.01.1945, Side 15
Skírnir
Jónas HallgT-'ímsson
13
Rómantísku skáldin kunna allra bezt við sig í rökkri og
tunglsljósi. Ég held um tunglsljós sé ekki getið nema í
tveimur vísum Jónasar, og eru báðar þýddar. Nokkru
oftar er minnzt á stjörnur. En í öðru hverju kvæði eða
meira er talað um himinljós, himinskin, dagsljósið dýra,
hagbjartan dag, fjörgjafarljósið skæra, guðsstjörnu,
heimsaugað hreina, guðsauga, brosfagra sól, guðfagra
sól . . . Og Huldu, skálddís sína, ávarpar hann ekki með
orðunum tunglskinsfagra mey, heldur sólfagra mey! Jón-
as þreytist ekki að lýsa þeirri fegurð, sem sólin varpar
yfir láð og lög; hann leggur ekki fæð á sólskinið, þó að
það sé nytsamt, eins og rómantíska skáldið, sem velur hið
töfrafulla og ónytsamlega tunglsljós, Jönas tignar sólina
vegna allra gjafa hennar, hún er lífsuppspretta, sjálft
guðs auga.
Ég skal nefna annað dæmi um sjálfstæði Jónasar, ekki
síður merkilegt. Mörg rómantísk skáld höfðu sérstakar
mætur á bláa litnum, lit fjarlægðarinnar. Þetta er líka
eftirlætislitur Jónasar. En merking hans er önnur. Fjar-
læg, misturblá fjöll koma áreiðanlega ekki oftar fyrir hjá
honum en sólroðin fjöll. Vanalega skipta fjöllin vel litum
hjá honum — það er alveg nóg að minna á litauðgi „Gunn-
arshólma“. Blái liturinn er hjá honum fyrst og fremst lit-
ur hins heiða himins, hins bjarta hafs. Næstur bláa litn-
um gengur hjá honum græni liturinn, litur grasstráanna
á vordegi, litur hins gróandi lífs.
I eftirmælum sínum eftir Svein Pálsson segir Bjarni
Thorarensen, að Sveinn hafi séð álfaslot hverjum í hamri.
Ég efast um, að þetta sé rétt. Mér finnst það hafi einmitt
verið mesta unun hins athugula náttúrufræðings að sjá
hlutina eins og þeir eru. Ég hygg Bjarni lýsi hér ósjálfrátt
sjálfs sín hug, hins rómantíska skálds. Ef litið er til Jón-
asar, er fljóttalið, það sem hann hefur af þessu. Hann tal-
ar um huldulið í „Hulduljóðum“, getur um hamratröll og
dvergana Frosta og Fjalar undir jökulrótum, um Loka
bundinn niðri í eldfjallinu, um góða blómálfa, sem grétu
skilnað skáldsins og ástmeyjar hans í Ferðalokum: