Skírnir - 01.01.1945, Síða 24
22
Einar Ól. Sveinsson
Skirnir
drep hljóp í fótinn, og hann andaðist 26. maí 1845, og varð
karlmannlega við þessu öllu. Hann dó í blóma aldurs síns,
á 38. ári. Ástmegir guðanna deyja í blóma lífsins, sögðu
Rómverjar. 0g Jónas var ástmögur guðanna. Sumum gefa
guðirnir gleði, öðrum sorg, án þess nokkur annar sé bætt-
ari. Jónas hlaut bæði gleði og sorg, en hann skapaði í list
sinni úr því fegurð, sem aldrei fyrnist. Konráð Gíslason
segir um Jónas: „Það, sem eftir hann liggur, mun lengi
halda uppi nafni hans á Islandi og bera honum vitni, betur
en vér erum færir um; en svo ágætt sem margt af því er,
má þó fullyrða, að flest af því komist í engan samjöfnuð
við það, sem í honum bjó, og að það geti ekki sýnt til hlítar,
hvílíkur hann var sjálfur í raun og veru.“ Sárt harmar
Konráð, að Jónas deyr svo snemma, og vissulega hefði
hann ort mörg meistaraverk, ef honum hefði orðið lengra
lífs auðið, og unnið þjóð sinni mikið gagn. En svo djúpan
skilning sem Konráð hefur haft á gildi kvæða hans, þá
hefur þó í því litla kveri, sem eftir hann liggur, búið meiri
frjósemdarkraftur en Konráð þorði að vona. Jónas sagði
sjálfur:
Veit eg, að stuttri stundarbið
stefin mín engir finna, —
en það fór á aðra leið. Þau hafa verið uppspretta Ijóss og
fegurðar jafnt fávísu barninu og gömlum spekingnum,
mey sem manni. Þau hafa verið lífgaldur þessari litlu
þjóð, sem síðan á hans dögum hefur verið að berjast
áfram til frelsis og menningar. Þau hafa verið eitt sterk-
asta aflið í þeirri baráttu.
Maðurinn lifir skamma stund og mettast af órósemi,
og síðan deyr hann, og þegar allt er komið í kring, kyssir
torfa náinn. En sé verk hans ágætt, hefur hann ekki lifað
til einskis. Því að verkið lifir áfram á jörðinni, og af því
spretta ný og ný verk, svo lengi sem heimurinn stendur.