Skírnir - 01.01.1945, Page 38
Jón Gíslason
Líkingar, list og líf
í skáldskap Hómers
I.
Margar bækur hafa skráðar verið um skáldskap og eðli
hans. Hver kynslóð að kalla hefur viljað sníða honum
stakk og leggja honum lífsreglurnar. En furðu endingar-
litlar hafa spjarir þessar reynzt flestar og hnigið niður í
hið dimma djúp með höfundum sínum. Skáldgáfa og skáld-
skapur eru þó enn við góða heilsu. Þau eru sem blómin,
er lifna við skaut jarðar vor hvert, eða berglindin tæra,
sem streymir ár og síð. Sú orðsins list hefur langlífust
orðið, er beinasta ruddi sér braut að knjám hinnar miklu
almóður, náttúrunnar, og skyggnum augum hefur fyrir
sér virt gjafmildi hennar og ægiveldi, frjómátt hennar og
feiknir og margháttaða baráttu manna og allra skapaðra
skepna fyrir lífi sínu og sinna.
Mikill fornmenntafræðingur segir á einum stað, að hann
hafi setið suður í Flórenz og verið að rýna í snjáð hand-
rit af leikritum Evrípídesar. Letrið var máð og bókfellið
skorpið og gulnað af elli. En sem hann var að stauta sig
fram úr þessum öldnu teiknum, birtust honum smám sam-
an gamalkunn, ljóðræn stef úr leikritinu Alkestis. Þá var
'sem einhver ung og yndisleg vera stigi upp úr ryki margra
alda, fúalyktin hyrfi, en blómaangan og uppsprettunið-
ur bærist honum að vitum. Eitthvað þessu lík mun vera
reynsla þeirra, sem leita til fundar við Hómer og leggja
hlustir við hörpuslætti hans. Þótt Hómer sé kominn til
ára sinna að vetratali, finna menn enn hressandi vorblæ
í Ijóðum hans. Persónur þeirra ganga fram í óbuguðum
þrótti æsku óg atgervis, tungutak þeirra og athafnir flytja