Skírnir - 01.01.1945, Qupperneq 143
Skírnir
Bamslund
141
sonakvæði, Gyðingsrímu o. fl. Ekki hef ég þó fundið
þau öll.
Mamma var innilega góð og trúhneigð kona; hún var
lagsæl og söng oftast morgunsálm, meðan hún klæddi okk-
ur börnin. Kvöld- og morgunbænir kenndi hún okkur og
lét okkur bjóða góða nótt fólkinu og góðan dag þeim, er
við hittum fyrst að morgni; þannig var, þegar ég hafði
lokið kvöldbænum mínum, að ég sagði svo að heyra mátti
um baðstofuna: „Góða nótt, mamma mín! Góða nótt,
pabbi minn! Góða nótt, amma mín! Góða nótt, allir!“
Þessi kristilegi heimilismáti bæði ömmu og mömmu hafði
mikil áhrif á mig: ég tók mig oft frá barnaleikjum og
reyndi að biðja Guð svo vel, að mér opinberaðist engill
af himni eða ég sæi himnastigann. Þegar mamma lá veik,
bað ég Guð að gefa henni heilsuna aftur. Og þó að ég
fyndi það á öllu og vissi, að það var gott og rétt að biðja
Guð, þá sældist ég til að láta engan um bænaiðju mína
vita.
Sögurnar, sem pabbi las á vetrarkvöldum, voru stór-
brotnar og hernaðarlegar, Egils saga Skallagrímssonar,
Njálssaga, Vatnsdæla o. fl. Þær runnu mér svo í blóð og
merg, að þegar svelluð var jörð og ég hafði vatnað fénu,
reisti ég upp svo og svo marga klakadranga og þóttist svo
koma, eins og Egill Skallagrímsson, með sverð í hendi.
Var þá skjótt, að alla fyrirsátursdrangana hafði ég að
velli lagt. — Þegar þetta vitnaðist, var mér bannað þetta,
það væri Ijótt að leika sér að hugsuðum manndrápum. —
Þetta tafði svo fyrir störfum mínum, bæði við smala-
mennsku og sendiferðir, að mér var refsað fyrir doskið.
Sauðféð var bælt á Stekkatúni fyrri hluta vors, og sat
ég einatt við það. Þegar allar ærnar voru lagztar, hvíldi
ég mig með stein undir höfðinu, reyndi þá að sofna, svo
að mig skyldi dreyma himnastigann eða aðra dýrlega
hluti. Við smalamennskuna þuldi ég langar ræður, kvað
rímur eða orti sálma. Allt gleymdist þetta jafnharðan, og
enginn mátti um það vita. — Á kvöldvökum vorum við
börnin látin tæja ull eða vinda af snældu. Var það ekki