Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 146
144
Eyjólfur Guðmundsson
Skírnir
ég á sendiferðir heim á Eyjabæina; olli því mest hunda-
þvagan, sem sótti að manni hjá hverjum bæ og bæja
milli. Grimmastur var í hundahersingunni „Vaskur frá
norðurbænum“, strútóttur hundsvargur, sem espaðist að,
ef maður vildi banda honum frá sér, og glefsaði í hæla
og hendur, ef hann náði til þess. Var mitt lag að siga eins
og mest ég gat, og hlupu þeir þá víðs vegar. En af því
leiddi þó, að mér var gefin „skömm í hattinn“ — vegna
þess að hundaþvagan tætti búfénað, sem átti að vera í
næði heima við.
Á sumarinn komu oft gestir, sem gengu upp á Pétursey
til þess að njóta hins fagra útsýnis af eynni. Ég fékk að
fara með þeim (þá sem næst 5—6 ára), og bar margt
merkilegt við í þeirri ferð. Efst í Eyjarhólabrekkum tínd-
um við hrútaber, og svo var hvíld tekin í Stóru-Smokru,
og var þá ógurleg hæð að líta ofan fyrir Lönghillubrún
og brekkurnar, svo að mig svimaði. Upp Skollastíg var
síðan lagt; var þar góður vegur upp á há-eyna, líkast því
sem náttúran hefði hlaðið traðarveggi til beggja handa.
Ofan af hábrúninni var mér sýnt — en haldið milli manna,
því að einn þorði ég ekki að ganga á fremstu nöf. Af
Hæstahrauni uppi á Pétursey opnaðist útsýni til fjalla.
Prestsetrið Fell blasti við og grænar Fellsbrekkur; það
fannst mér eins konar undirheimar, furðu fagrir og að-
laðandi. Og meðan skemmtifólkið hvíldi sig í mosavaxinni
hraunlág, féll ég í eins konar dá — og hef að líkindum
blundað — því að ég hrökk upp við að ein stúlkan, er
Manga hét, sagði, að strákurinn yrði víst að verða eftir,
hann væri „út úr því“ af þreytu — en ég var svo hrifinn
og undrandi, en ekki uppgefinn.