Skírnir - 01.01.1945, Page 147
Þorkell Þorkelsson
Sumarauki
Athugasemd við rit um Ara fróða.
Árið 1942 gaf Bókmenntafélagið út ritið „Ari fróði“
eftir dr. Einar Arnórsson hæstaréttardómara. Þar ræðir
E. A. meðal annars um meðferð Ara á frásögninni um
fund sumarauka. Um þetta mál hefur verið ritað allmikið
áður, en E. A. gerir sér hægt um hönd og sleppir alveg að
geta um það. Það verður jafnvel ekki séð af því, sem hann
ritar í ofangreindu riti, hvort hann hefur kynnt sér það
nokkuð, eða þá, að honum hafi þótt það svo marklaust, að
óþarfi væri að geta þess að nokkru.
Sá kafli ritsins, sem hér um ræðir, byrjar á bls. 95, með
fyrirsögninni: 14. gr. C. Sumarauki, en aðeins það sem
stendur á bls. 96 og 97 verður hér tekið til nokkurrar at-
hugunar. Einkennilegt er það, hvernig rökræða hins heiðr-
aða höf. um þetta mál hefst á bls. 96 ofarlega: „Setjum
svo, að sumarkoma hefði verið ákveðin 930 tiltekinn
fimmtudag (t. d. 14.) eftir miðjan vetur“ o. s. frv. Það
þekkist ekkert dæmi til þess, að sumar hafi komið 14.
fimmtudaginn eftir miðjan vetur, heldur hefur sumarið
komið ávallt 13. fimmtudaginn eftir miðjan vetur. En
þetta getur verið prentvilla eða eitthvað því um líkt, og
er lítið við því að segja. En að miða sumarkomu við miðj-
an vetur finnst mér bera vott um það, að höfundurinn
hafi ekki íhugað tímatalsmálið rækilega. Jafnvel orðið
„miður vetur“ getur ekki orðið til, fyrr en upphaf og lok
vetrarins eru þekkt og ákveðin. En þetta er nú samt auka-
atriði, og sný ég mér að því, þar sem er verulegur skoð-
anamunur á milli mín og E. A.
Allir eru sammála um það að byggja á frásögn Ara
10