Skírnir - 01.01.1945, Page 168
166
Jón Leifs
Skírnir
Lepjulegur seimur ur-endingar (hátt-ur) dregur úr áherzl-
um setninga og orða, sem greinilegri voru til forna, en
það eru einmitt sterkari áherzlur, sem vantar í íslenzku
vorra tíma. Latmæli eru letimæli. Norskan og sænskan
virðast hafa erft meiri áherzlur frá fornri norrænu en
nýíslenzkan.
Síðar fór eg að gera athuganir á hreimi og hljóðföllum
íslenzkra setninga, en það varð ekki fyrri en taktskipt-
ingafallandi íslenzkra þjóðlaga hafði gert eyrað næmt
fyrir áherzlum og takti tungunnar. Óbundið mál vorra
fornu bókmennta færði mér fyrst heim sanninn um, hve
mikill kraftur býr í hljóðföllum og hendingum íslenzkra
atkvæða og setninga. Þar mátti ekki eingöngu heyra
stuðlasetningu og augljóst rím, heldur einnig frá orði til
orðs samræmi milli einstakra bókstafa og hljóða, sem
skóp takt og stef setninganna. Eitthvað eimir eftir af
þessu í einstaka hendingum íslenzkra þjóðsagna, en rit-
höfundar seinni tíma virðast varla enn hafa reynt af
ásettu ráði að endurreisa þessi sköpunarlögmál íslenzkrar
tungu. Islenzkan er einmitt veigamikið tónrænt listarefni,
hljómandi og lifandi afl, sem heyrast þarf upphátt til að
njóta sín til fulls. Tökum dæmi: Setningin í upphafi
Njálu: „Mörðr hét maðr, er kcdlaðr var ..." — sýnir ekki
aðeins stuðlasetning með bókstafnum „m“, heldur einnig
samræmi bókstafsins „a“ f jórum sinnum (maðr — kall —
aðr — var) og hljóðanna „ðr“ þrisvar (Mörðr, maðr, kall-
aðr). Þetta eru eins konar hendingar, sem koma bæði í
ljós með áherzlum og áherzlulaust, þegar vér heyrum setn-
inguna mælta fram hægt og tignarlega með greinilegum
áherzlum allra þriggja höfuðorðanna. Þessi og önnur tón-
ræn setningaskipun birtist í bezt sömdu fornbókmenntum
vorum með hverri einustu setningu, eins og í vel sömdu
tónverki hver tónn, hver hljómur og hver tónalína birtast
með hnitmiðuðu samræmi hvert við annað frá upphafi
verksins til enda. Vér getum hlustað eftir þessu í Njálu,
Eglu, Laxdælu, Hænsna-Þóris sögu o. s. frv. Minna ber
þó á því í þeim sögum, sem eru miður vel ritaðar eins og