Skírnir - 01.01.1945, Side 174
172
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
hingað til lands á fornum dögum, kynnu einhverjar minj-
ar þess að finnast. Ekki er mér kunnugt um neitt það, er
með sannindum verði talið líklegt til að vera slíkar minj-
ar, nema ef vera skyldi nokkrir fornir peningar, sem
fundnir eru á Austfjörðum. Um þá hefur þjóðminjavörð-
ur, Matthías Þórðarson prófessor, góðfúslega gefið mér
eftirfarandi skýrslu:
„Á síðustu áratugum hafa fundizt 3 fornar, rómverskar
smámyntir úr bronzi, upprunalega silfraðar, svonefndir
Antoninianar, hér á Austfjörðum. Hinn fyrsti fannst
skammt frá Bragðavöllum í Hamarsfirði 1904. Hann er
sleginn fyrir Probus keisara (276-82). Hinn annarfannst
rétt hjá Krossanessfjalli, á söndunum úti fyrir mynninu
á Hvoldal, milli Krossaness og Hvalness, sumarið 1923;
er hann sleginn fyrir Diocletian keisara (284-305), en
hinn þriðji fannst á sama stað og hinn fyrsti 1933. Hann
er sleginn fyrir Aurelianus keisara (270-75). Sér enn á
honum dálítinn silfurlit, og hann er minnst eyddur, þótt
hann sé þessara peninga elztur. — Ég skal geta þess, að
ég rannsakaði fundarstað hans og hins fyrsta næsta sum-
ar, fann þar lítilfjörlegan vott mannavista, svo sem að-
flutta steina, en enga manngjörða gripi, sem virzt gætu
eldri en frá landnámstíð. Ætla ég, að myntir þessar hafi
varðveitzt í jörðu á Englandi, áður en þær hafa borizt
hingað til lands, líklega með Pöpum eða norrænum mönn-
um á landnámstíð eða skömmu síðar.“
Þannig farast Matthíasi Þórðarsyni orð. Ef peningar
þessir eru frá fornöld, er vitanlega hugsanlegt, að þeir
séu svo til komnir sem hann minnist á. Hitt kynni líka að
geta verið, að þeir séu úr eigu einhvers ferðalangs sunn-
an að, kaupmanns fyrr á öldum, sem hrakizt hefði af
veðrum út hingað alveg eins og Garðar og Naddoður löngu
síðar. Hefði hann þá misst hér fé sitt, ef til vill líka borið
hér beinin — nema þá Neptúnus hafi verið honum mildur
og unnað honum farsællar heimfarar.