Skírnir - 01.01.1945, Qupperneq 175
Skírnir
Papar
173
III.
Cæsar fór til Bretlands árið 55 f. Kr., og síðan lögðu
Rómverjar allan suðurhluta landsins undir sig, eða allt
norður að Forth-firði. Á öllu því svæði bjuggu þá keltnesk-
ar þjóðir, sem vér nefnum Breta, og er mál þeirra enn tal-
að í Wales, en England varð Engilsöxum að bráð, eftir að
veldi Rómverja í landinu þraut (á 5. öld), og á ensk tunga
þar upptök sín. Á írlandi bjó þjóðflokkur, setn talaði ann-
að keltneskt mál, írsku, og þó að skyldleiki sé með brezku
og írsku, er munurinn harla mikill. Á Skotlandi norðan-
verðu voru Piktar, eða Péttar, eins og þeir nefnast á nor-
rænu, og er af nafni þeirra dreginn Péttlandsfjörður;
þeir nefndust á írsku Cruithni, og er fólks af því þjóðerni
getið á írlandi á ýmsum stöðum, en þar voru þeir undir-
okaðir af írum. Deilt er um, hvort Péttar hafi mælt á
keltneska tungu, en svo litlar leifar eru til af máli þeirra,
að varla þykir unnt að komast að fullri vissu um það; þó
telur Carl Marstrander, norskur keltneskufræðingur, að
af péttneskum mannanöfnum megi sjá, að tunga þeirra
hafi ekki verið keltnesk.1) Talið er, að þeir hafi í ýmsu
verið fornlegir og annarlegir í háttum; t. d. muni mæðra-
veldi hafa tíðkazt með þeim og kvenleggur tekinn fram
yfir karllegg.
Péttar voru herskáir, enda dró sambýlið við Rómverja
ekki úr því. Þeir gerðust sjómenn miklir og víkingar. Tal-
ið er, að sjóveldi þeirra hafi verið sem mest á norðan-
verðu Skotlandi, í Orkneyjum og Hjaltlandi á 5.-7. öld.
Frá þeim er talið að stafi mikið af jarðhúsum á þessum
slóðum, svo og mikil virki eða „borgir“ hlaðnar úr grjóti,
og er Moseyjarborg á Hjaltlandi þeirra frægust.2) Oft er
getið um herferðir þeirra suður á bóginn, og afl hefur
þeim aukizt eftir að Rómverjar hættu að verja sinn hluta
landsins.
1) Sjá Norsk tidsskr. f. sprogvidenskap V 281—82.
2) Sbr. A. W. Brögger: Den norske bosetningen pá Shetland—
Orkn0yene, Skrifter utg. av Det norske vidensk.-akademi i Oslo 1930.