Skírnir - 01.01.1945, Page 208
206
Pétur Sigurðsson
Skímir
II.
Af sendiför Gottrúps lögmanns stöfuðu ýmsar umbæt-
ur, svo sem nýr verzlunartaxti árið 1702. En það sem
skiptir máli hér er sú ráðstöfun konungs, er hann sendi
Árna prófessor Magnússon til íslands og skipaði hann og
Pál varalögmann Vídalín til þess að starfa hér sem um-
boðsmenn konungs í ákveðnum málefnum. Var þeim feng-
ið erindisbréf í 30 liðum, dagsett 22. maí 1702, er þeir
skyldu starfa eftir. Er þeim fyrst falið að semja jarðabók
um allt landið, þar sem taldar séu allar jarðir með hjá-
leigum, tómthúsbýlum og verbúðum, getið eiganda, dýr-
leika jarðarinnar í hundruðum á landsvísu og peninga-
gildi, ábúanda, landskuldar, kúgildafjölda, leigna, búfjár
og hversu mikið jörðin geti borið. Ennfremur skyldi getið
eyðibýla, hvers vegna þau hafi farið í eyði og hversu
mætti koma þeim aftur í byggingu. Þá var þeim falið að
athuga kjör leiguliða, hvort landskuldir séu í hófi, jarðir
séu ofhlaðnar kúgildum og kvöðum, lagt ríkt á að rann-
saka kærur alþýðu á hendur embættismönnum, háum sem
lágum, og fara þar ekki í manngreinarálit, ennfremur
hafa eftirlit með verzluninni, að kaupmenn fari eftir taxta
og svíki ekki vöru sína. Þá var þeim falið að láta taka
manntal um land allt og geta um stöðu hvers eins; sér-
staklega er tekið fram, að telja beri alla flakkara, sem
fóru um landið í hópum, svo að til vandræða horfði, og
rannsaka, af hverjum sökum þeir hafi flosnað upp og
hversu mætti setja þá til nytsamlegra starfa. Þetta er í
8 fyrstu greinum erindisbréfsins af 30; hinar er ástæðu-
laust að rekja hér.
Til er uppkast að erindisbréfi þessu í ríkisskjalasafni
Dana, þar sem rannsóknar- og nefndarstarf þetta er falið
Árna Magnússyni og Páli Beyer, er síðar varð hér land-
fógeti, ásamt biskupum báðum og lögmönnum. Vafalaust
hefur það verið verk Árna Magnússonar að fá þessu
breytt; hann hefur kosið Pál Vídalín til samstarfs með
sér og fengið til þess samþykki stjórnarvaldanna.