Skírnir - 01.01.1945, Qupperneq 225
Skímir
Hermikenningin um uppruna tungumála
223
Hermikenningunni hefur borizt nýr, öflugur stuðningur. Dr. Al-
exander Jóhannesson, prófessor við Háskóla íslands, sérfræðingur
í íslenzkri tungu og tengslum hennar við indógermönsk mál, hefur
komizt að þeirri niðurstöðu eftir víðtækar, sjálfstæðar rannsóknir,
að orðarætur indógermanska frummálsins séu fyrst og fremst mynd-
aðar við slíkar hermihreyfingar. Ég hef skrifað próf. Alexander
Jóhannessyni út af þessari nýjung og farið þess á leit, að hann léti
í Ijós álit sitt á hermikenningunni, og fengið svohljóðandi svar:
„Reykjavík, 23. jan. 1945.
Á árunum 1930—1942 hafði ég með höndum samningu saman-
burðarorðabókar yfir íslenzkt mál, gamalt og nýtt, sem mun koma
út að stríðinu loknu. Ég komst að raun um, að íslenzkan hefur varð-
veitt meira af hinum indógermönsku frumrótum en nokkurt annað
mál, að forngrísku einni undanskilinni (íslenzkan hefur varðveitt
um 57% af þeim rótum, sem fræðimenn hafa fundið með rann-
sókn, en forngríska um 67%). Ég rannsakaði gaumgæfilega allar
hinar idg. rætur, og orðabók mín mun sýna uppruna h. u. b. 20,000
orða (orðabók Falks og Torps hefur aðeins um 5,000 forníslenzk
orð, og orðabókin eftir Walde og Pokorny h. u. b. 4,500).
Er líða tók á verk mitt, veitti ég því smám saman athygli, að
mikill fjöldi rótanna sýndi upprunalega merkingu, sem var í nánu
sambandi við eðli hljóðsins. Ég tók mér því fyrir hendur að reyna
að flokka ræturnar og raða þeim í kerfi samkvæmt uppruna þeirra,
og árangur þess varð bók mín: „Um frumtungu Indógermana og
frumheimkynni“, sem gefin var út á íslenzku ásamt efniságripi á
frönsku á vegum Háskóla íslands árið 1943. í riti þessu hef ég
skýrt h. u. b. 25% af hinum idg. rótum og sýnt, að mikill hluti
þeirra hefur myndazt við eftirlíkingu talfæranna á handapati.
Er ég hafði lokið næstum helmingi þessa verks, barst mér bók
Sir Richards Pagets: „Human Speech“. Það gladdi mig mjög að
sjá, að með rannsóknum sínum á eðli hljóðanna hafði hann komizt
að næstum sömu niðurstöðu og ég í rannsóknum mínum í saman-
burðarmálfræði. Þessi bók hvatti mig því til frekari rannsókna, og
hefur mér nú tekizt að sýna, að meirihluti indógermanskra róta er
til orðinn við eftirlíkingar hreyfinga, og auk þess hefur mér veitzt
sú ánægja að finna hermikenninguna einnig staðfesta í hebresku
(af ákveðnum hópi hebreskra róta, sem ég rannsakaði, gat ég auð-
veldlega skýrt ca. 60% sem látæðisorð).
Hermikenning Sir Richards Pagets mun hafa geysilega þýðingu
fyrir alla málfræði. Ég get ekki betur séð en spumingin um upp-
runa málsins sé þegar leyst i meginatriðum. Allar samanburðar-
orðabækur ættu í framtíðinni að byggjast á þessum grundvelli og
efni þeirra að skiptast í þrennt eftir frummerkingu róthljóðanna,
þ. e. í látæðisorð, hljóðgervinga og upphrópanir, og mundu látæðis-